„Áður fyrr, þegar maður var á leið í sjóinn, þá fór maður frekar hljótt með það. Þá þótti maður frekar klikkaður en í dag er maður ekki maður með mönnum nema að hafa að minnsta kosti prófað. Það hefur safnast gífurleg þekking og reynsla í þessum efnum og við vitum betur hvað við erum að gera,“ segir Benedikt.
Ári áður hafði Benedikt reynt við sundið í tilefni af fimmtugsafmæli sínu en náði ekki í land. Í síðari atrennunni gekk betur en þó ekki áfallalaust. Til að mynda missti hann af hinum vanalega lendingarstað og þurfti því að vera lengur í sjónum til að ná landi.
„Ég var sextán tíma og eina mínútu að fara yfir. Ég stend eiginlega enn þá við það að til að þetta teljist sem sund þá þurfi maður að vera sextán tíma eða skemur. Ég eiginlega flaut þarna yfir,“ segir hann.
Þegar Benedikt þreytti sundið var annar Íslendingur, nafni hans Lafleur, einnig að reyna við sundið. Jón Karl Helgason gerði heimildarmyndina Sundið árið 2012 um keppni þeirra nafna um hvor yrði fyrstur Íslendinga til að komast yfir Ermarsundið.

„Ég synti líka Alcatraz-sundið árið 2012 og hélt að það væri stórkostlegt sund. Það reyndist alveg þræleinfalt og auðvelt. Það ættu allir að synda þetta sem sjósund stunda og helst í sundskýlu og með gleraugu. Það er ekkert mál að synda það, í raun bara eins og skemmtiskokk í Reykjavíkurmaraþoninu,“ segir Benedikt.
Í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá afrekinu ætlar kappinn að sjálfsögðu að kíkja örlítið í sjóinn hér heima og hitta félaga sína. Benedikt er nýkominn úr Ermarsundinu en hann var öðrum Íslendingi, lögreglumanninum Jóni Kristni Þórissyni, til halds og trausts við tilraun hans við sundið nú. Sá náði ekki alla leið.
„Ef maður hefði tíma væri gaman að prófa að synda Gíbraltar-sundið, Katalínu og stóru sundin í Ástralíu. Það krefst þó gríðarlegrar æfingar, maður verður helst að synda fimmtíu kílómetra á viku til að eiga séns. Sem stendur hef ég eiginlega ekki tíma í það,“ segir Benedikt.