Jöfn aðsókn í listkennsludeild
Þrátt fyrir dalandi aðsókn í kennaranám almennt hefur aðsókn í listkennsludeild Listaháskóla Íslands verið nokkuð jöfn frá því nýju lögin tóku gildi. Deildin var stofnuð árið 2009 og hafa um tuttugu listkennarar útskrifast árlega. Þaðan hafa því komið rúmlega 200 listgreinakennarar í heildina. Það er næstum sami fjöldi og hóf námið þar sem brottfall úr náminu er nær ekkert. Listkennsludeild útskrifar kennara með bakgrunn úr öllum listgreinum sem bætt hafa við sig meistaragráðu í menntunarfræðum. Þau hafa réttindi til að kenna í grunnskóla og sína sérgrein í framhaldsskóla.Hinir skapandi Íslendingar
Í nýlega birtri rannsókn sem Barbara Kerr, prófessor í sálfræði við Háskólann í Kansas, stýrði hér á landi kom fram að Íslendingar séu almennt óvenju skapandi. Ein af meginástæðum þess er talin áhersla okkar á nýsköpunar-, list- og verkgreinakennslu í grunnnámi barna.Samkvæmt úttekt sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gerði og birti fyrir ári kom hins vegar í ljós að verulegur misbrestur er á því að nemendur fái lögbundinn kennslustundafjölda í list- og verkgreinum. Sumir hafa bent á skort á list- og verkgreinakennurum og kann það að vera hluti ástæðunnar. Miðað við útskriftatölur úr listkennsludeild dreg ég þó í efa að það sé eina ástæðan.
Hin óráðna framtíð
Gera má ráð fyrir að minnst 60% af því sem unglingur í dag kemur til með að nota sér á lífsleiðinni hafi ekki enn þá verið uppgötvað. Í grunnþáttum menntastefnunnar er einnig áhersla á að mennta gagnrýna, virka og hæfa nemendur til þátttöku í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Þess vegna er brýn þörf fyrir hugmyndaríka kennara með ólík áhugasvið og áherslur.Listafólk er þjálfað í gagnrýnum, sjálfstæðum vinnubrögðum, skapandi lausnaleit og hefur færni til að bregða óvæntu sjónarhorni á viðburði líðandi stundar. Þau finnst mér vera ómissandi afl inn í flóru komandi kennarastéttar sem menntar börnin okkar til að takast á við síbreytilegan heim. Menntum því fleiri list- og verkgreinakennara og listamenn til kennslu.
Höfundur er deildarforseti listkennsludeildar LHÍ