Erlent

Macron kynnir umdeildar tillögur sínar um aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði

Atli Ísleifsson skrifar
Nokkuð hefur dregið úr vinsældum Emmanuel Macron að undanförnu.
Nokkuð hefur dregið úr vinsældum Emmanuel Macron að undanförnu. Vísir/AFP
Emmanuel Macron Frakklandsforseti kynnir í dag umdeildar tillögur sínar um breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni í landinu. Búist er við miklum mótmælum í landinu í næsta mánuði þegar þingið mun greiða atkvæði um málið.

Núgildandi löggjöf er um þrjú þúsund síður og segir til um réttindi launþega. Breytingarnar, sem var eitt af helstu kosningaloforðum Macron síðasta vor, ganga meðal annars út á að auka möguleikann á tímabundnum ráðningum, auðvelda vinnuveitendum að segja upp fólki með því að draga úr starfslokagreiðslum, og auka möguleika vinnuveitenda að semja sjálf við launþega í stað þess að fara að ákvæðum miðlægra samninga.

Nokkuð hefur dregið úr vinsældum Macron að undanförnu, en hann vill auka sveigjanleika á vinnumarkaði til að draga úr atvinnuleysi í landinu, sem mælist um 10 prósent. Tillögurnar eru í um sextíu liðum, alls 150 blaðsíðna skjali.

„Við erum eina stóra hagkerfið innan ESB sem hefur ekki tekist að draga úr fjöldaatvinnuleysi í rúma þrjá áratugi,“ sagði Macron í samtali við Le Point.

Samtök launþega og margir vinstrimenn óttast að með breytingunum verði dregið verulega úr réttindum launþega. Franskir fjölmiðlar segja að stéttarfélagið CGT hafi hótað verkföllum og mótmælum þann 12. september vegna breytinganna. Þá skipuleggur vinstrimaðurinn Jean-Luc Mélenchon fjölmenn mótmæli í París þann 23. september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×