ÍBV fær Val í heimsókn og Fram sækir Íslandsmeistara Hauka heim í oddaleikjunum tveimur í dag. Þeir hefjast báðir klukkan 16.00. Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, er á því að Eyjamenn og Haukar vinni sína leiki í dag.
Þrátt fyrir manneklu og magapest unnu Valsmenn góðan sigur á Eyjamönnum í síðasta leik, 31-27. Stefán segir að pressan sé á ÍBV í dag.
„Öll pressan er á ÍBV. Valsararnir eru búnir að vinna bikarinn og eru fyrst og fremst að hugsa um Evrópukeppnina,“ sagði Stefán en Valsmenn eru komnir í undanúrslit Áskorendabikars Evrópu þar sem þeir mæta Potaissa Turda frá Rúmeníu.
„Ég held að Valsmenn verði hrikalega öflugir á morgun og muni láta Eyjamenn hafa mikið fyrir þessu. En á endanum held ég að gríðarlega sterkt Eyjalið nái að vinna. Þeir eru með það gott lið og á heimavelli; blái dúkurinn er kominn út og það er mikil stemning í Eyjum,“ sagði Stefán en ÍBV tapaði síðast á heimavelli 25. nóvember á síðasta ári. Síðan þá hafa Eyjamenn leikið sjö heimaleiki, unnið fimm og gert tvö jafntefli.
Fram kom gríðarlega á óvart með því að vinna fyrsta leikinn gegn Haukum á Ásvöllum. Sigurinn kom þó ekki að kostnaðarlausu því Arnar Birkir Hálfdánarson fékk rautt spjald undir lokin og var í banni í öðrum leiknum sem Haukar unnu, 24-28. Stefán segir að það skipti höfuðmáli fyrir Fram hvernig Arnar Birkir spili í dag.
„Það munaði miklu um Arnar Birki í leik tvö. Hann kemur núna inn og ég held að þessi leikur ráðist svolítið á því hvort hann geti skorað um 10 mörk. Hann þarf að eiga sinn besta leik til að Fram vinni. Ég held að möguleiki Fram á að komast áfram hafi verið að vinna í Safamýrinni. Fram vinnur ekki tvisvar á Ásvöllum,“ sagði Stefán. Hann segir að það sé Haukum í hag að halda markaskorinu lágu í dag.
„Ef þeir standa þokkalega vörn vinna Haukar þetta. Möguleiki Fram felst í því að skora yfir 30 mörk. Þeir þurfa að fá stórleik frá Arnari Birki og toppmarkvörslu,“ sagði Stefán en hinn 16 ára Viktor Gísli Hallgrímsson var hetja Fram í fyrsta leiknum þegar hann varði vítakast eftir að leiktíminn var runninn út.
Spáir ÍBV og Haukum áfram
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið


Í beinni: Vestri - Fram | Úrslitaleikur undir
Íslenski boltinn

Ekki pláss fyrir Rúnar í flugvélinni: „Ég fórnaði mér í þetta“
Íslenski boltinn






Elín Jóna ólétt og verður ekki með á HM
Handbolti
