Erlent

Trump lætur Theresu May heyra það á Twitter

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Theresa May og Donald Trump á G20 fundi í Hamborg í sumar.
Theresa May og Donald Trump á G20 fundi í Hamborg í sumar. vísir/getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lét Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, heyra það á Twitter í gærkvöldi eftir að hún gagnrýndi hann fyrir að dreifa boðskap hægri öfgamanna á samfélagsmiðlinum í gær.

Bandaríkjaforseti endurtísti (e. retweet) myndböndum sem Jayda Fransen, varaformaður breska þjóðernisöfgaflokksins Britain First, hafði deilt á Twitter. Deildi Trump myndböndum sem Fransen sagði sýna múslima eyðileggja styttu af Maríu mey, berja ungling til dauða og ganga í skrokk á ungmenni á hækjum en Bandaríkjaforseti er með 43 milljónir fylgjenda á Twitter.

Talsmaður Theresu May sagði í gær að það hefði verið rangt af Trump að deila þessu efni á Twitter og að breski forsætisráðherrann fordæmdi þessi tíst Bandaríkjaforseta.

Trump beindi síðan spjótum sínum á Twitter gegn May þar sem hann sagði henni að einbeita sér ekki að honum heldur að hryðjuverkastarfsemi í Bretlandi.

„Theresa May, ekki einbeita þér að mér heldur að róttækri hryðjuverkastarfsemi íslamista í Bretlandi. Það er í góðu lagi með okkur!“ tísti Trump í gærkvöldi.

Hvaða áhrif þetta mun hafa á samband leiðtoganna tveggja á enn eftir að koma í ljós en mikil reiði braust út í Bretlandi í gær út af endurtístum Trump á boðskap Britain First. Þannig kölluðu margir eftir því, ekki síst þingmenn Verkamannaflokksins, að boð breskra stjórnvalda um að Trump komi þangað í opinbera heimsókn verði afturkallað. Það hefur ekki verið gert.


Tengdar fréttir

Trump forseti dreifði boðskap fasista til tugmilljóna fylgjenda

Donald Trump Bandaríkjaforseti endurtísti þremur myndböndum frá breska stjórnmálaflokknum Britain First. Um er að ræða stjórnmálaflokk sem hefur ítrekað falsað myndir og birt myndbönd undir falskri yfirskrift til að koma höggi á múslim




Fleiri fréttir

Sjá meira


×