Erlent

Herjað á einkennisdýr Ástralíu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kóalabirnir eru af mörgum taldir einkennandi fyrir ástralskt dýralíf. Þessi kóalabjörn tengist fréttinni ekki beint.
Kóalabirnir eru af mörgum taldir einkennandi fyrir ástralskt dýralíf. Þessi kóalabjörn tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Ástralska lögreglan rannsakar nú það sem sagður er vera dýraníðsfaraldur í landinu. Undanfarna mánuði hafa fundist hræ dýra, sem flest eru einkennandi fyrir hið fjölbreytta lífríki landsins, víðsvegar um Ástralíu, nú síðast á mánudag.

Þar hafði kóalabjörn verið drepinn og eyrun skorin af honum. Hræ hans fannst um 250 kílómetra vestan af Melbourne. Lögreglan segir óljóst hvort hann hafi verið á lífi þegar eyrun voru skorin af. Þó að kóalabirnir séu ekki í útrýmingarhættu er stofn þeirra sagður viðkvæmur. Talið er að fjöldi þeirra í náttúrunni nái ekki 100 þúsund dýrum.

Haft er eftir lögreglunni á vef breska ríkissjónvarpsins að málið sé óhugnanlegt og að það sé rannsakað í samhengi við fleiri dráp á þessu ári.

Er í því samhengi vísað til kengúru sem skotin var í hausinn í Melbourne í júní. Hafði hún verið bundin við stól og áfengisflösku komið fyrir á hræinu. Þá hafa fundist hræ vallabía sem einnig virðast hafa drepist af mannavöldum.

Lögreglan hefur biðlað til almennings um upplýsingar sem kunna að varpa ljósi á málin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×