Erlent

Tugir þúsunda í göngu þjóðernissinna í Varsjá

Atli Ísleifsson skrifar
Rauð blys og pólskir fánar voru áberandi í göngunni.
Rauð blys og pólskir fánar voru áberandi í göngunni. Vísir/afp
Tugir þúsunda komu saman til að taka þátt í göngu þjóðernissinna í pólsku höfuðborginni Varsjá í gær í tilefni af þjóðhátíðardegi landsins.

BBC greinir frá því að mótmælendur hafi hrópað slagorð á borð við „guð, heiður, land“ og sumir hafi hrópað rasistaslagorð eins og „Hreint Pólland, hvítt Pólland“.

Lögregla áætlar að um 60 þúsund manns hafi tekið þátt í kröfugöngunni, en um tvö þúsund manns tóku þátt í fundi sem haldinn var til höfuðs göngu þjóðernissinnanna.

Stuðningsmenn stjórnarflokksins Lög og réttlæti (PiS) tóku margir þátt í göngunni og lýsti innanríkisráðherrann Mariusz Blaszczak göngunni sem „fallegri sjón“. „Við erum stolt af því að svo margir Pólverjar hafi ákveðið að taka þátt í fögnuði í tengslum við þjóðhátíðardaginn,“ sagði Blaszczak. Rauð blys og pólskir fánar voru áberandi í göngunni.

Andrzej Duda Póllandsforseti bauð öllum fyrrverandi og núlifandi forsetum Póllands ásamt fleirum til opinbers viðburðar í tilefni af þjóðarhátíðardeginum. Fyrrverandi forsætisráðherrann Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, var einnig meðal gesta forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×