Skoðun

Davíð þó

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar
Í liðinni viku kvað Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) upp dóm í máli Egils Einarssonar gegn íslenska ríkinu. Niðurstaða dómsins var að með dómi Hæstaréttar í meiðyrðamáli Egils gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni hafi íslenska ríkið gerst brotlegt við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).

Daginn eftir að dómurinn gekk birti Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og fyrrverandi dómari við MDE, grein á vefsvæði sínu undir yfirskriftinni „Fúkyrði eða fullyrðing?“.

Í greininni segir Davíð Þór meðal annars (1) að skilaboðin frá MDE séu nokkuð misvísandi, (2) að niðurstaða Hæstaréttar þess efnis að líta beri á tjáninguna sem gildisdóm sé, þegar á allt er litið, ágætlega rökstudd og sannfærandi og (3) að Hæstiréttur hafi í góðri trú beitt í dómi sínum sömu sjónarmiðum og MDE hefur gert.

Ég er ósammála Davíð Þór:

Í fyrsta lagi má lesa það út úr dómi MDE að aukinn rökstuðningur Hæstaréttar hefði engu breytt. Niðurstaða Hæstaréttar þess efnis að ummælin „rapist“ væru gildisdómur var einfaldlega röng í ljósi þeirrar staðreyndar að sakamálin gegn Agli höfðu verið felld niður. Egill hefur hvorki verið ákærður né sakfelldur fyrir nauðgun.

Í öðru lagi þá verða ummælin með engu móti réttlætt, eins og Hæstiréttur kaus að gera, með vísan til bloggfærslna sem Egill skrifaði árið 2007 enda voru ummælin sem málið snerist um sett fram vegna viðtals sem birtist árið 2012 eða 5 árum síðar og fjallaði um niðurfellingu fyrrgreindra sakamála.

Í þriðja lagi byggir dómur MDE á því að ekki sé nægjanlegt fyrir Hæstarétt að beita þeim sjónarmiðum sem MDE hefur mótað í framkvæmd ef matið er bersýnilega ófullnægjandi. Dómur MDE er því í góðu samræmi við fyrri dóma réttarins í íslenskum málum. Fyrir utan að íslenskir dómstólar fylgi viðmiðum MDE hlýtur að mega gera þá kröfu til íslenskra dómstóla að matið sjálft og niðurstaða þess sé í samræmi við almenna skynsemi.

Í stuttu máli felur dómur MDE í sér þau skýru og einföldu skilaboð til íslenska ríkisins að Hæstiréttur eigi að láta það ógert í framtíðinni að kveða upp dóma sem þennan.


Tengdar fréttir

Prófessor segir skilaboðin frá MDE misvísandi

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli Egils Einarssonar gegn íslenska ríkinu sendir misvísandi skilaboð til landsdómstóla, segir í grein Davíðs Þórs Björgvinssonar, prófessors í lögfræði.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.