Erlent

Hneyksli skekur skraflheiminn

Atli Ísleifsson skrifar
Simmons var dæmdur fyrir að hafa handfjatlað stafi þegar hann tók þá upp úr pokanum og skilað þeim svo aftur í pokann. Slíkt athæfi er með öllu bannað.
Simmons var dæmdur fyrir að hafa handfjatlað stafi þegar hann tók þá upp úr pokanum og skilað þeim svo aftur í pokann. Slíkt athæfi er með öllu bannað. Vísir/Getty
Mikið hneyksli skekur nú skraflheiminn eftir að stjörnuspilarinn Allan Simmons var dæmdur í þriggja ára bann frá þátttöku á mótum. Simmons var dæmdur í bann af Samtökum breskra skraflspilara eftir að hafa verið fundinn sekur um svindl.

Niðurstaða óháðrar rannsóknarnefndar var að Simmons hafi á mótum handfjatlað stafi þegar hann tók þá upp úr pokanum og skilað þeim svo aftur í pokann. Er um skýrt brot á reglum leiksins að ræða.

Simmons hefur skrifað bækur um skrafl og fjallað um leikinn á síðum blaðsins Times.

Í frétt Guardian segir að nefndarkonan Elie Dangoor hafi greint frá því í gær að þrír sjónarvottar hafi orðið vitni að brotum Simmons. „Eðlileg niðurstaða var talin að hann hafi svindlað,“ segir Dangoor.

Til umræðu á HM

Rannsókninni lauk fyrir nokkrum vikum þar sem fjögur mismunandi atvik frá síðasta ári höfðu verið til rannsóknar. Það var hins vegar fyrst fyrir nokkrum dögum sem málið fór þó að vekja athygli og var það til umræðu á heimsmeistaramótinu í skrafli sem lauk nú á sunnudag.

Simmons hefur sagt við Times að hann hafni söllum ásökunum um svindl. Times hefur hætt samstarfi sínu við leikmanninn.

Guardian hefur ekki náð í Simmons en haft var eftir honum í samtali við Times að hann ætli sér nú að einbeita sér að „mikilvægari hlutum í lífinu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×