Skoðun

Samfélagsábyrgð í verki

Svavar Halldórsson skrifar
Heildarlosun frá íslenskri sauðfjárrækt er 291 þúsund tonn kolefnisígilda (CO2) á ári eða sem nemur 28,6 kg á hvert kíló lambakjöts samkvæmt kortlagningu sem sérfræðingar Umhverfisráðgjafar Íslands unnu nýverið fyrir Landssamtök sauðfjárbænda.

Í skýrslu þeirra eru annars vegar lagðar til aðgerðir til að draga úr losun með minni áburðarnotkun, eldsneytisskiptum o.fl. og hins vegar mótvægisaðgerðir með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Á grundvelli þessa kynntu samtökin á dögunum tímasetta aðgerðaáætlun um fulla kolefnisjöfnun íslenskrar sauðfjárræktar árið 2022 sem vonandi verður hluti af umhverfis- og loftslagsstefnu Íslands.

Vörslumenn landsins

Bændur vinna nú þegar náið með Landgræðslunni að landbótum í gegnum verkefni eins og Bændur græða landið, gæðastýringu í sauðfjárrækt og Kortlagningu gróðurauðlindarinnar. Á rúmum aldarfjórðungi hafa sauðfjárbændur um allt land grætt upp 50 þúsund hektara lands og 300 þúsund hektarar verið verndaðir fyrir beit.

Um 90 prósent bænda hafa stundað uppgræðslu og þeir vilja halda áfram á sömu braut samkvæmt könnun sem Landssamtök sauðfjárbænda gerðu meðal félagsmanna sinna í sumar. Um 40 prósent hafa ræktað skóg og 60 prósent vilja stunda aukna skógrækt í framtíðinni.

Siðlegir búskaparhættir

Íslenskur landbúnaður er í algerum sérflokki þegar kemur að litlu umhverfisfótspori og hreinleika afurða. Notkun sýklalyfja er ein sú minnsta í heimi, bændur nota að stórum hluta græna orku, hormónar eru ólöglegir og bann við notkun á erfðabreyttu fóðri í íslenskri sauðfjárrækt var staðfest í fyrra. Að sjálfsögðu liðkar það fyrir sölu að afurðin sé framleidd á heilnæman hátt í sátt við náttúru og samfélag. En bændur vilja líka sýna samfélagsábyrgð í verki, óháð því hvort það hjálpar til við sölu eður ei.

Sauðfjárbændur vilja vera í fararbroddi þegar kemur að siðlegum búskaparháttum og ábyrgri umgengni við náttúruna. Þess vegna verður íslensk sauðfjárrækt kolefnisjöfnuð.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts og Icelandic lamb.
Skoðun

Skoðun

Taxi!

Þorsteinn Sæmundsson skrifar

Sjá meira


×