Handbolti

Gunnar grillaði Eyjamenn: Ólýsanlega leiðinlegt og Róbert dripplar eins og í 4. flokki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
ÍBV bjargaði stigi í 27-27 jafntefli á móti nýliðum Fjölnis í Olís-deild karla á sunnudaginn en Eyjamenn fengu vítakast þegar að leiktíminn var liðinn.

Þetta var ekki í fyrsta sinn í vetur sem Eyjamenn sleppa með skrekkinn á móti liðum sem spáð er í fallbaráttu en þeir voru heppnir að ná sigri á útivelli gegn botnliði Gróttu í síðasta mánuði.

Frammistaða ÍBV var ekki góð á móti Fjölni og fékk liðið þokkalega útreið hjá sérfræðingum Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

„ÍBV á að vera svakalegt lið en samt sem áður, umferð eftir umferð, sjáum við deyfð og þyngsli. Þetta var á löngum köflum mjög lélegur leikur hjá ÍBV,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson en Gunnar Berg Viktorsson kveikti undir grillinu og henti ÍBV-liðinu á það.

„Það er til skammar að vera að spila á móti Fjölni og tapa fjórtán boltum upp úr engu. Eyjamenn voru ólýsanlega lélegir. Þeir voru staðir í sókninni - þetta er ekki sóknarleikur fyrir fimm aura,“ sagði hann.

„Það er enginn að spila saman, það eru allir að stinga niður, það er ekkert að frétta. Af hverju láta þeir ekki boltann ganga? Það er ólýsanlega leiðinlegt að horfa á þetta. Ég hitti menn fyrir utan í hálfleik sem fóru heim því þeir nenntu ekki að horfa á þetta.“

Róbert Aron Hostert, leikstjórnandi ÍBV, var ekki að heilla Gunnar Berg og hvernig hann ber upp boltann með því að drippla honum fram allan völlinn.

„Mér finnst þetta alveg ótrúlega skrítið. Maður dripplaði fram völlinn svona kannski í fjórða flokki,“ sagði hann.

„Þetta gerðist svona fimm eða sex sinnum í leiknum. Ég bara skil þetta ekki. Þetta er svo gamaldags handbolti. Af hverju stoppar þetta enginn af og segir manninum að senda boltann og hlaupa af stað? Menn þurfa að mæta bolta og gera þetta af einhverjum krafti,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×