Erlent

Þingmaðurinn sem vildi að hjákonan færi í fóstureyðingu segir af sér

Kjartan Kjartansson skrifar
Murphy (t.v.) gæti þurft á faðmlagi að halda eftir að hafa komið sér á kaldan klaka með tvískinnungi.
Murphy (t.v.) gæti þurft á faðmlagi að halda eftir að hafa komið sér á kaldan klaka með tvískinnungi. Vísir/EPA
Tim Murphy, þingmaður Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, ætlar að segja af sér síðar í þessum mánuði. Murphy hefur verið þekktur andstæðingur fóstureyðinga en hann varð nýlega uppvís að því að hafa hvatt hjákonu sína til að fara í fóstureyðingu þegar hann hélt að hún væri með barni.

Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og flokksbróðir Murphy, tilkynnti um afsögn hans í dag. Hún tekur gildi 21. október, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Afsögn Murphy kemur í kjölfar uppljóstrana um samskipti hans við konu sem hann átti í leynilegu ástarsambandi við. Þegar hún sakaði þingmanninn um hræsni í ljósi þess að hann talaði opinberlega gegn fóstureyðingum sagðist Murphy ekki skrifa þá stefnu sjálfur og að hann hrylti við henni.

Murphy var einn flutningsmanna frumvarps um að banna fóstureyðingar eftir tuttugustu viku meðgöngu sem var samþykkt í fulltrúadeildinni á þriðjudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×