Erlent

Andstæðingur fóstureyðinga hvatti hjákonu til að fara í fóstureyðingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Afstaða Tims Murphy í garð fóstureyðinga reyndist ekki eins einörð og hann hafði látið í veðri vaka þegar á hólminn var komið
Afstaða Tims Murphy í garð fóstureyðinga reyndist ekki eins einörð og hann hafði látið í veðri vaka þegar á hólminn var komið Vísir/AFP
Bandarískur þingmaður Repúblikanaflokksins sem er yfirlýstur andstæðingur réttar kvenna til fóstureyðinga reyndi að fá hjákonu sína til að fara í fóstureyðingu þegar útlit var fyrir að hún væri með barni.

Dagblaðið Pittsburgh Post-Gazette greinir frá smáskilaboðum sem Tim Murphy, fulltrúadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins frá Pennsylvaníu, sendi hjákonu sinni. Murphy viðurkenndi framhjáhald sitt opinberlega fyrir nokkrum dögum. Hann hefur verið vinsæll hjá samtökum sem berjast gegn fóstureyðingum í Bandaríkjunum.

Þegar hjákonan sakaði hann um hræsni í ljósi þess að hann væri yfirlýstur andstæðingur fóstureyðinga viðurkenndi þingmaðurinn að hann hryllti við stuðningsyfirlýsingum sem starfsmenn hans skrifuðu í hans nafni við slíkar hreyfingar.

„Ég skrifa þær aldrei. Aðstoðarmenn mínir gera það. Ég les þær og mig hryllir við. Ég segi aðstoðarmönnum mínum að skrifa þær ekki framar. Ég ætla að gera það,“ skrifaði Murphy til konunnar.

Engu að síður var Murphy á meðal þingmanna repúblikana sem lögðu fram frumvarp sem leggur bann við fóstureyðingum eftir tuttugu vikna meðgöngu í gær. Það var samþykkt í fulltrúadeildinni. Ólíklegt er þó talið að frumvarpið verði að lögum þar sem demókratar og hófsamir repúblikanar í öldungadeildinni eru því andsnúnir, að því er kemur fram í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.

Uppfært 23:06 Murphy tilkynnti í kvöld að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í þingkosningunum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×