Erlent

Sjúklingum og fyrirburum komið í öruggt skjól vegna sprengju

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá aðgerðum í Frankfurt í dag.
Frá aðgerðum í Frankfurt í dag. Vísir/afp
Viðbragðsaðilar eru nú byrjaðir að rýma sjúkrahús í þýsku borginni Frankfurt vegna sprengju úr seinna stríði sem fannst í miðborginni á þriðjudag. Sprengjan verður sprengd undir eftirliti sérfræðinga á morgun. BBC greinir frá.

Yfir hundrað sjúklingar hafa verið fluttir á brott af tveimur spítölum í Frankfurt en þeirra á meðal eru fyrirburar og sjúklingar á gjörgæslu. Þá verða 500 fluttir af dvalarheimilum snemma í fyrramálið.

Til stendur að flytja 65 þúsund manns úr Frankfurt á morgun eftir að sprengjan, sem er úr seinna stríði, fannst við jarðvegsvinnu á Wismarer-götu, skammt frá Goethe-háskólanum á þriðjudag.

Sjá einnig: Flytja 60 þúsund manns úr Frankfurt

Sprengjan verður sprengd á morgun undir eftirliti sérfræðinga en búist er við því að aðgerðir vegna hennar taki að minnsta kosti hálfan sólarhring.

Um er að ræða stærstu skipulögðu brottflutninga á fólki í Þýskalandi síðan í seinni heimsstyrjöldinni en talsmenn lögreglu segja að hver sá sem neiti að fara verði handtekinn.

Sprengjan er bresk og af gerðinni HC 4000 en hún er um 1,4 tonn að þyngd. Lögreglan vaktar sprengjuna allan sólarhringinn, þrátt fyrir að hún telji almenningi ekki stafa mikil hætta af henni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×