Erlent

Sprengjusérfræðingum tókst ætlunarverk sitt í Frankfurt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sprengjusérfræðingarnir Rene Bennert og Dieter Schwetzler sitja hér fyrir með aftengdri sprengjunni sem er bresk og af gerðinni HC-4000.
Sprengjusérfræðingarnir Rene Bennert og Dieter Schwetzler sitja hér fyrir með aftengdri sprengjunni sem er bresk og af gerðinni HC-4000. Vísir/afp
Sprengjusérfræðingar í Frankfurt hafa gert gríðarstóra sprengju úr seinna stríði, sem fannst í miðborginni á þriðjudag, óvirka. Tilkynnt var um farsælan endi á ferlinu í dag. BBC greinir frá.

Nokkuð erfiðlega gekk þó að aftengja sprengjuna að sögn sérfræðinga sem unnu að verkefninu en þeir áttu í basli með að fjarlægja stóran hluta sprengjubúnaðarins.

Í gær voru nokkur hundruð sjúklingar fluttir á brott af spítölum í Frankfurt en þeirra á meðal voru fyrirburar og sjúklingar á gjörgæslu. Þá var mikill mannfjöldi fluttur af dvalarheimilum snemma í morgun, auk óbreyttra íbúa á svæðinu.

Íbúar í Frankfurt bíða nú eftir leyfi til þess að snúa aftur til híbýla sinna í borginni en lögregla segir aftengingu sprengjunnar og brottflutninga á fólki hafa gengið samkvæmt áætlun að mestu. Töluverður fjöldi íbúa var þó ekki tilbúinn til brottflutninga á tilsettum tíma og mega einhverjir búast við sektum vegna þess.

Gert er ráð fyrir að um 65 þúsund hafi verið fluttir á brott úr Frankfurt eftir að sprengjan, sem var um 1,4 tonn, fannst við jarðvegsvinnu á Wismarer-götu, skammt frá Goethe-háskólanum á þriðjudag.

Um er að ræða stærstu skipulögðu brottflutninga á fólki í Þýskalandi síðan í seinni heimsstyrjöldinni en lögregla kannaði hvert einasta hús með hitaskynjunarbúnaði til þess að ganga úr skugga um að enginn hefði orðið eftir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×