Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Selfoss 29-26 | Garðbæingar byrja tímabilið á sigri

Benedikt Grétarsson skrifar
Ólafur Gústafsson skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna.
Ólafur Gústafsson skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna. vísir/anton
Stjarnan fer vel af stað í Olísdeild karla í handknattleik en Stjörnumenn unnu sanngjarnan 29–26 sigur gegn Selfossi í fyrstu umferð deildarinnar í kvöld. Staðan í hálfleik var 17–11. Ari Magnús Þorgeirsson skoraði átta mörk fyrir Stjörnuna. Sveinbjörn Pétursson átti fínan leik í markinu og varði 16 skot. Markahæstur Selfyssinga var Hergeir Grímsson sem skoraði átta mörk.

Bæði liðin hafa krækt í feita bita á leikmannamarkaðinum í sumar og áhorfendur fengu að sjá þessa leikmenn í góðum gír í Mýrinni í kvöld. Stjörnumenn voru miklu betri í fyrri hálfleik og keyrðu trekk í trekk yfir ráþrota Selfyssinga. Varnarleikur Garðbæinga var mjög góður og bak við vörnina stóð Sveinbjörn Pétursson vaktina vel.

Stjörnumenn skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins og gáfu tóninn. Selfyssingar bitu aðeins frá sér en í stöðunni 10-8 skildu leiðir. Stjarnan skoraði sjö mörk gegn þremur á lokakafla fyrri hálfleiks og hafði þægilegt sex marka forskot að honum loknum, 17-11.

Markmenn Selfyssinga klukkuðu varla bolta og útlitið alls ekki bjart hjá liðinu.

Patrekur Jóhannesson hefur væntanlega tekið menn í bænastund í hálfleik, því að Selfyssingar mættu með blóð á tönnum til leiks í seinni hálfleik. Þeir léku grimma 3-2-1 vörn sem Stjörnumönnum gekk illa að leysa og fyrr en varði var munurinn aðeins tvö mörk.

Heimamenn náðu að leysa varnarleik gestanna betur og drifnir áfram af Ara Magnúsi Þorgeirssyni, héldu Stjörnumenn sjó þrátt fyrir nokkur ágæt áhlaup Selfyssinga. Niðurstaðan, eins og áður segir, sanngjarnan sigur Stjörnunnar.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan vann leikinn á góðum varnarleik og markvörslu. Reyndar kom kafli í seinni hálfleik þar sem Selfyssingar náðu að skora nokkur auðveld mörk en flest komu þau eftir klúður í sókn Stjörnunnar.

Samvinna miðjublokkar og markmanns var góð hjá Stjörnunni og sóknarleikurinn gekk lengstum ágætlega, þrátt fyrir örlítið hikst í upphafi seinni hálfleiks. Í byrjun leiks virkuðu Stjörnumenn einnig einfaldlega tilbúnari í leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Ari Magnús Þorgeirsson átti mjög góðan leik hjá Stjörnunni og var sá maður sem braut ísinn þegar allt virtist vera að sigla í strand. Sveinbjörn Pétursson var mjög stöðugur í markinu og virðist halda áfram á sömu braut og í fyrra. Þá er vert að minnast á Hörð Kristinn Örvarsson, sem átti fína innkomu í vörn og sókn.

Hjá Selfossi var Hergeir Grímsson eldfljótur að refsa í sókninni og línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson á eftir að reynast liðinu happafengur.

Hvað gekk illa?

Markvarsla Selfyssinga var einfaldlega hörmuleg í fyrri hálfleik, þegar markverðir liðsins vörðu samtals eitt skot. Það segir sig sjálft að svoleiðis frammistaða gengur ekki gegn jafn sterku liði og Stjörnunni. Reyndar var vörn gestanna ekki að hjálpa neitt sérstaklega mikið til en þó voru ófá skotin sem markverðir liðsins áttu klárlega að taka. Þetta þarf að batna hið snarasta.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fær gott tækifæri til að byrja deildina af krafti en Stjörnumenn taka á móti Fram í næstu umferð. Fljótt á litið, ætti Stjarnan á eðlilegum degi að klára þann leik og það væri afskaplega mikilvægt að keyra sjálfstraust í þennan flotta mannskap.

Þá eru Stjörnunni ýmsir vegir færir. Selfyssingar fá nýliða Fjölnis í heimsókn og þurfa að búa til alvöru gryfju á sínum heimavelli en Selfoss var með skelfilegan árangur á heimavelli í fyrra.

Einar: Héldum haus

„Þetta var virkilega kærkomið, það er óhætt að segja það,“ sagði afar sáttur Einar Jónsson eftir sigurleik Stjörnunnar gegn Selfossi í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Stjarnan vann 29-26 og byrjar mótið af krafti.

Eftir góðan fyrri hálfleik, lentu lærisveinar Einars í basli í uphafi seinni hálfleiks gegn framliggjandi vörn Selfyssinga.

„Já, það tók okkur smá tíma að átta okkur. Við höfum ekkert verið að undirbúa okkur rosalega mikið gegn þessari vörn. Þeir hafa verið að spila önnur varnarafbrigði en þetta er bara flott lið og þeir komu hrikalega grimmir út í seinni hálfleikinn og slógu okkur aðeins út af laginu. Við héldum hins vegar haus, kláruðum leikinn og ég er hrikalega ánægður með það.“

„Fyrri hálfleikurinn var bara frábær. Bæði vörn og markvarsla voru mjög góð og sóknarlega erum við mjög beittir og skorum 17 mörk. Síðasta korterið er líka gott. Þá komum við sterkir til baka eftir að þeir keyra hrikalega á okkur og gera atlögu. Við náum að vinna okkur aftur upp í 4-5 marka forystu og það klárar leikinn. Þetta Selfoss lið er hrikalega gott og það er virkilega ánægjulegt að hafa náð að vinna þá.“

Blaðamaður minnist sérstaklega á frammistöðu Ara Magnúsar Þorgeirssonar og Sveinbjörns Péturssonar og fær umsvifalaust létta pillu frá Einari fyrir að gleyma varnarjaxlinum Bjarka Má Gunnarssyni.

„Fannst þér sem sagt Bjarki ekki góður í vörninni? Hann var líka frábær. Liðsheildin var bara góð. Við lendum í meiðslum og þurfum að rótera aðeins. Við erum að bregðast mjög vel við, margir að spila og margir að skila virkilega góðu hlutverki. Menn eru búnir að tala ansi mikið um að þessi deild verði svakaleg og þetta er örugglega eitthvað sem koma skal. Ég vona bara að fólk hafi skemmt sér og notið þess að horfa á þennan leik.“

Patrekur: Erum djöfull góðir þegar við erum á hundrað

Endurkoma Patreks Jóhannessonar endaði ekki á besta veg fyrir Patrek og lærisveina hans í Selfossi sem töpuðu 29-26 gegn Stjörnunni í opnunarleik Olísdeildar karla. Patrekur var þrátt fyrir tapið nokkuð brattur eftir leik.

„ Fyrri hálfleikur var svekkjandi. Við vorum alltof hægir og fórum í engar aðgerðir af krafti. Það var smá stress fannst mér og svo fáum við náttúrulega enga markvörslu, einhvern einn bolta í 30 mínútur sem er mjög erfitt. Að því sögðu, þá var seinni hálfleikur flottur. Þá mætum við beittir í allar okkar aðgerðir sóknarlega og það er það sem við verðum að gera. Ég hefði líklega átt að brýna betur fyrir þeim í leikhléum að fara fram af meiri krafti.“

„Við vorum ekki nógu klókir og svo fara tvö víti forgörðum. Það er erfitt að vera alltaf að elta en ég verð að hrósa strákunum að berjast til enda og hengja ekki haus. Það var jákvætt og við lærum af því. Fyrri hálfleikurinn fór bara með þetta og það er erfitt að vera 17-11 undir á móti liði eins og Stjörnunni,“ sagði gamla goðsögnin úr Garðabænum.

Selfyssingar áttu prýðilega kafla inn á milli en gekk bölvanlega að tengja þá vel saman allan leikinn.

„Þetta er búið að vera svona hjá okkur á undirbúningstímabilinu. Við eigum flotta leiki en dettum illa niður á milli. Við þurfum að finna stöðugleika og vera alveg á hundrað, þá erum við djöfull góðir. Við náðum því bara í 30-35 mínútur í dag,“ sagði Patrekur að lokum.

Sveinbjörn: Best að segja bara sem minnst

„Það er vissulega gott að vera fyrir aftan Bjarka  en það má reyndar segja líka um Óla, Stebba og alla hina. Ég og Bjarki höfum spilað mikið saman áður og það er mjög gott að hafa hann fyrir framan sig,“ sagði markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson eftir 29-26 sigur Stjörnunnar á Selfossi í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik.

Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Gunnarsson spilaði sinn fyrsta mótsleik fyrir Stjörnuna og stóð vaktina vel í vörninni.

„Það er ótrúlega gott að byrja mótið með tveimur stigum hérna á heimavelli og það voru mikið af jákvæðum hlutum í gangi. Við vinnum okkur þetta forskot inn en vissum það jafnframt að Selfoss hættir aldrei að berjast. Það er ekki hægt að finna veikan blett á okkur í fyrri hálfleik. Við stöndum frábærlega í vörn og spilum svo mjög agaðan sóknarleik. “

Stjörnunni er spáð fínu gengi í vetur en finnst Sveinbirni vera einhver innistæða fyrir slíkum spádómum?

„Okkur finnst það. Það er búið að spá okkur hingað og þangað en það er ekkert hægt að segja svona snemma inn í mótið. Við eigum okkar markmið og sumarið hefur verið gott. Best að segja bara sem minnst og gera bara sem mest inni á vellinum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira