Viðskipti innlent

Hætt við sölu Öryggismiðstöðvarinnar

Hörður Ægisson skrifar
EBITDA hagnaður VÍS var 420 milljónir í fyrra.
EBITDA hagnaður VÍS var 420 milljónir í fyrra. vísir/eyþór
Eigendur Öryggismiðstöðvar Íslands, sem eru meðal annars Hjörleifur Þór Jakobsson, fyrrverandi forstjóri Hampiðjunnar og Olíufélagsins Esso, og Guðmundur Ásgeirsson, oft kenndur við Nesskip, hafa hætt við sölu á fyrirtækinu. Ákvörðun um þetta var tekin fyrr í þessum mánuði en þá höfðu staðið yfir viðræður við þrjá til fjóra hópa fjárfesta um möguleg kaup á öllu hlutafé félagsins, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Fyrirtækið var sett í söluferli í lok maímánaðar, eins og greint var frá í Fréttablaðinu á þeim tíma, en það var fyrirtækjaráðgjöf Arct­ica Finance sem var ráðgjafi seljenda í ferlinu. Samkvæmt heimildum Markaðarins stóðu væntingar eigenda til þess að geta selt allt hlutafé félagsins fyrir rúmlega þrjá milljarða króna.

Í stuttri fjárfestakynningu sem var send á fjárfesta og ýmsa markaðsaðila í tengslum við söluferlið kom meðal annars fram að tekjur félagsins hefðu aukist um liðlega fjórðung á árinu 2016 og numið tæplega 3,7 milljörðum króna. EBITDA-hagnaður – afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta – batnaði einnig um 130 milljónir á milli ára og nam 421 milljón í fyrra.



Hjörleifur Jakobsson er stjórnarformaður Öryggismiðstöðvarinnar.
Stærsti eigandi Öryggismiðstöðvarinnar er Unaós ehf. með 90 prósenta hlut. Helstu eigendur þess félags, hvor um sig með ríflega 30 prósenta hlut, eru Guðmundur Ásgeirsson og hjónin Hjörleifur Þór og Hjördís Ásberg. Hjörleifur, sem er jafnframt stjórnarformaður Öryggismiðstöðvarinnar, var um tíma einn nánasti samstarfsmaður Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa, og stýrði þá fjárfestingarfélaginu Kili sem var stór hluthafi í Kaupþingi og sat í stjórn bankans.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×