Skoðun

Öll börn í umferðinni eru okkar börn

Hildur Guðjónsdóttir skrifar
Umferðarfræðsla er órjúfanlegur þáttur í skólastarfi og uppeldi barna. Leik- og grunnskólar landsins sinna þessum þætti vel og starfrækir Samgöngustofa umferðarskóla fyrir elstu leikskólabörnin á hverju vori þar sem kennarar fræða börnin um umferðina og umferðartengda hegðun.

Hlutverk foreldra í umferðarfræðslu og forvörnum er mikilvægt því þar er mótunin sterkust. Nú þegar skólar eru að hefjast viljum við benda foreldrum á að kynna vel fyrir barninu hvaða leið er best í skólann. Stysta leiðin er ekki alltaf sú öruggasta og mikilvægt að börnin geri sér grein fyrir hvers eðlis umferðin er svo að þau geti ferðast um á öruggan hátt.

Þegar börnum er ekið í skólann eykst umferð í kringum skólasvæði. Nauðsynlegt er að gæta vel að því að barni sé alltaf hleypt út úr bílnum þeim megin sem gangstéttin er, aldrei út á akbraut. Öll börn eiga að vera í bílbelti og börn undir 135 cm á hæð eiga að vera í bílstól.

Á heimasíðu Samgöngustofu er að finna ýmsa fræðslu varðandi öryggi barna í umferðinni. Hér eru tíu örugg ráð sem gott er að hafa í huga:

1. Æfum leiðina í og úr skóla með barninu.

2. Veljum öruggustu leiðina í skólann – það þarf ekki

endilega að vera sú stysta.

3. Leggjum tímanlega af stað.

4. Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið

á að fara eftir.

5. Kennum barninu að fara yfir götu,

með og án gönguljósa.

6. Verum sýnileg, notum endurskinsmerki.

7. Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir.

8. Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið,

bæði börn og fullorðnir.

9. Tökum tillit til annarra vegfarenda,

sérstaklega í nánd við skóla.

10. Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð

á skólasvæðinu

Fullorðnir eru fyrirmyndir barna og þau læra meira af því sem fullorðnir gera en því sem þeir segja.

 

Höfundur er sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.
Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.