Erlent

Vara við þrautseigri tegund lekanda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lekandi smitast með óvörðu kynlífi og orsakast af bakteríunni neisseria gonorroheae.
Lekandi smitast með óvörðu kynlífi og orsakast af bakteríunni neisseria gonorroheae. Vísir/Getty
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, varar við stórhættulegri tegund lekanda sem berst nú manna á milli og hefur þróað með sér ónæmi fyrir sýklalyfjum. Stofnunin kennir munnmökum og samdrætti í smokkanotkun um ástandið. BBC greinir frá.

WHO segir lekanda nú mun erfiðari viðureignar en áður og í sumum tilfellum sé ómögulegt að meðhöndla hann. Lekandi, sem berst manna á milli með kynmökum, hefur þróað með sér ónæmi fyrir ýmsum sýklalyfjum.

Sérfræðingar segja stöðuna „nokkuð ófrýnilega“ og að ekki sé útlit fyrir að mörg ný lyf komi á markað í bráð. Um 78 milljónir manna smitast af lekanda árlega en hann getur valdið ófrjósemi.

„Lekandi er mjög klár pest"

Teodora Wi, sérfræðingur í smitsjúkdómum hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, segir að greind hafi verið þrjú tilfelli af lekanda, í Japan, Frakklandi og Spáni, þar sem ekkert dugaði til að meðhöndla sjúklingana.

„Lekandi er mjög klár pest, í hvert skipti sem þú kynnir til söguna nýja tegund sýklalyfja til að meðhöndla lekanda, þá þróar hann með sér ónæmi fyrir þeim."

Þá hafa sérfræðingar sérstaklega áhyggjur af því að flest tilfelli lekandasýkinga greinast nú í fátækum löndum þar sem erfiðara er að greina ónæmi fyrir sýklalyfjum. WHO kallar nú eftir því að lönd heimsins fylgist með útbreiðslu lekanda, sem hefur þróað með sér ónæmi, og fjárfesti í nýjum lyfjum.

Lekandi smitast með óvörðu kynlífi og orsakast af bakteríunni neisseria gonorroheae. Einkenni geta meðal annars verið þykk, græn eða gul útferð úr kynfærum, sársauki við þvaglát og milliblæðingar hjá konum. Sumir sjúklingar fá aldrei nein einkenni vegna sjúkdómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×