Erlent

Tölvuþrjótar réðust á tugi kjarnorkuvera í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Wolf Creek-kjarnorkuverið í Burlington í Kansas varð meðal annars fyrir tölvuinnbroti.
Wolf Creek-kjarnorkuverið í Burlington í Kansas varð meðal annars fyrir tölvuinnbroti. Vísir/Getty
Bandaríska leyniþjónustan telur að tölvuþrjótar hafi brotist inn í tölvukerfi fyrirtækja sem reka tugi kjarnorkuvera frá því í maí. Í skýrslu um innbrotin er áyktað að erlend ríki, mögulega Rússland, hafi staðið að þeim.

Ekkert bendir til þess að tölvuþrjótarnir hafi komist í stjórnkerfi orkuveranna en þeir sendu háttsettum verkfræðingum hjá fyrirtækjunum tölvupósta sem litu út eins og starfsumsóknir sem spilliforrit voru falin í.

Í skýrslu heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna sem New York Times hefur fengið aðgang að kemur fram að tölvuþrjótarnir hafi meðal annars komist inn í tölvukerfi fyrirtækis sem rekur Wolf Creek-kjarnorkuverið í Kansas.

Fyrirtækið staðfestir ekki innbrotið en segir að rekstrarkerfi orkuversins hafi ekki orðið fyrir neinum áhrifum. Í yfirlýsingu alríkislögreglunnar FBI og heimavarnaráðuneytis segir að almannahætta hafi ekki skapast af árásunum.

Líkist fyrri árásum rússneskra hakkara

Ekki liggur fyrir hvað tölvuþjótunum gekk til með innbrotunum en útlit er fyrir að þeir hafi verið að kortleggja tölvukerfin fyrir árásir síðar meir.

Sérfræðingar í tölvuöryggi segja bandaríska blaðinu að tæknin sem var notuð líkist þeirri sem rússneskir hakkarar hafi notað í árásum á orkufyrirtæki. Bandarísk yfirvöld sökuðu Rússa meðal annars um að standa að baki árás sem olli rafmagnsleysi í Úkraínu fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×