Erlent

Níu almennir borgarar afhöfðaðir í Kenía

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hermenn á vegum Afríkubandalagsins hafa starfað við friðargæslu í Sómalíu um nokkurt skeið.
Hermenn á vegum Afríkubandalagsins hafa starfað við friðargæslu í Sómalíu um nokkurt skeið. Vísir/afp
Hryðjuverkamenn úr öfgasamtökunum al-Shabaab afhöfðuðu níu almenna borgara í árás á þorpið Jima í suð-austurhluta Kenía í dag.

Í frétt breska dagblaðsins Guardian segir að öfgamennirnir sem stóðu að árásunum hafi verið frá nágrannalandinu Sómalíu. Árásir af þessu tagi, þar sem almennir borgarar eru afhöfðaðir, eru fátíðar í Kenía þrátt fyrir að samtökin al-Shabaab herji ítrekað á almenna borgara í landinu. Mun algengara er að árásarmennirnir notist við þessa hrottafullu aðferð í heimalandinu, Sómalíu.

Árásum al-Shabaab hefur fjölgað mjög á síðustu vikum. Samtökin hafa heitið því að refsa Kenía fyrir að senda hersveitir til Sómalíu árið 2011, sem hluta af friðargæslu Afríkubandalagsins þar í landi, en al-Shabaab trónuðu á toppi lista þeirra íslömsku öfgasamtaka sem bera ábyrgð á flestum dauðsföllum í Afríku á síðasta ári.

Mikil ógn við öryggi íbúa í aðdraganda forsetakosninga

Um fimmtán árásarmenn al-Shabaab réðust í dag inn í bæinn Jima, tóku menn í gíslingu og drápu þá með hnífum. Á síðustu mánuðum hafa að minnsta kosti 46 látist í árásum samtakanna í héruðunum Lamu og Mandera í Kenía.

Hvorki yfirvöld né forseti landsins hafa tjáð sig um árásina en utanríkisráðherra landsins, Fred Matiangi, kom á útgöngubanni íbúa á svæðinu. Bannið gildir frá sólarupprás til sólarlags en svæðið er nálægt landamærum Kenía og Sómalíu.

Forsetakosningar fara fram í Kenía í næsta mánuði en mikil ólga er nú landinu, einkum vegna al-Shabaab sem eru mikil öryggisógn við íbúa. Árið 2015 létust nær 150 háskólanemar í Kenía er samtökin gerðu árás á háskóla í borginni Garissa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×