Skoðun

Besta útgáfan af þér

Styrkleikar okkar eru sagðir okkur eins eðlilegir og það að draga andann og þeir drífa okkur áfram. En þekkja allir helstu styrkleika sína?

Rannsóknir gefa til kynna að aðeins einn þriðji einstaklinga hafi góðan skilning á því hverjir styrkleikar þeirra eru og að allir hafi tilhneigingu til að vera að einhverju leyti blindir á eigin styrkleika. Hvað græðum við á því að þekkja og nota styrkleika? Nýleg könnun The VIA Institute on Character og Michelle McQuaid, sem náði til 1.000 bandarískra starfsmanna, gefur meðal annars til kynna betri vinnuanda og aukna framleiðni.

Árangursríkir leiðtogar þurfa að þekkja sjálfa sig, sem og starfsmenn sína, og flytja þá jafnvel til í starfi þar sem styrkleikar þeirra henta betur. Starfsmaður notar hugsanlega hugrekki til að fallast ekki hendur í erfiðum verkefnum og lætur í sér heyra ef einhver er beittur óréttlæti, jafnvel þó það sé óvinsælt. Annar býr mögulega yfir seiglu, sýnir ábyrgð, er einstaklingur sem virðir tímamörk og lýkur verkefnum. Sá þriðji sýnir góðvild, aðstoðar vinnufélaga og gerir öðrum greiða. Fjórði hefur forvitni sem sinn helsta styrkleika og er því starfsmaður sem skoðar, uppgötvar og hefur einlægan áhuga á því sem er að gerast og svo má lengi telja. Það er sömuleiðis áhrifaríkt að þekkja styrkleika starfsmanna til að velja einstaklinga í afkastamikil teymi. Þannig sér leiðtoginn til dæmis virði einstaklinga, samhæfir, hlustar og deilir verkum, skapandi starfsmaður leggur til nýjar hugmyndir og nálganir og víðsýnn starfsmaður veltir fyrir sér kostum og göllum áður en niðurstaða fæst.

Gleymum heldur ekki einkalífinu. Sjálfstjórn drífur okkur fram úr á morgnana og fær okkur til að mæta á réttum tíma til vinnu .Engin starfslýsing er til fyrir fjölskyldulífið, sem betur fer kannski, en það gefur okkur aukna vídd að þekkja styrkleika maka og barna, og stuðla að því að hver einstaklingur blómstri gegnum þessa eiginleika. Styrkleikar nýtast víðar, svo sem í námi, til að fara út fyrir þægindarammann þegar við erum stressuð og í erfiðleikum lífsins.

Ef þú vilt breytingar, veltu þá fyrir þér hvort styrkleikar gætu verið hluti af vegferð þinni til að verða besta útgáfan af sjálfum þér.

Þórhildur Ída Þórarinsdóttir, eigandi ráðgjafafyrirtækisins Spígspor og FKA-félagskona.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×