Skoðun

Stöðugleikasjóður auðlindahagkerfisins

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Verkefni okkar er að draga úr sveiflum og auka stöðugleika. Vegna smæðar hagkerfisins og tiltölulega fábreytts útflutnings, þá mun íslenska hagkerfið alltaf búa við einhverjar sveiflur. Ísland er útflutningsdrifið auðlindahagkerfi. Hagsaga okkar hefur einkennst af miklum hagsveiflum en þær gera almenningi og fyrirtækjum í landinu erfiðara fyrir að gera áætlanir um framtíðina.

Stofnun Stöðugleikasjóðs Íslands mun draga úr sveiflum og auka þar með stöðugleika. Slíkur sjóður kæmi í veg fyrir að uppgangur í einni útflutningsgrein skerði ekki sam­keppnis­hæfni annarra. Þjóðir sem eru ríkar af auðlindum, líkt og Ísland, hafa sett upp svipaða sjóði í sama tilgangi. Norski olíusjóðurinn er eitt besta dæmið um slíkan sjóð.

Fjármála- og efnahagsráðherra sagði á ársfundi Landsvirkjunar á miðvikudaginn að nýr vinnuhópur hefði verið skipaður til að leggja drög að þjóðarsjóði. Ráðherrann talar fyrir því að arðgreiðslur frá Landsvirkjun muni fjármagna sjóðinn og sem gætu verið á bilinu 10-20 ma.kr. á ári. Þetta dugar ekki til. Slíkur sjóður mun ekki auka stöðugleika eins og við öll sækjumst eftir því of langan tíma tekur að byggja upp myndarlegan höfuðstól.

Stöðugleikasjóðinn á frekar að fjármagna með nokkrum leiðum. Í fyrsta lagi með stofnframlagi, til dæmis hluta af stöðugleikaframlögum slitabúanna sem nýttur er til kaupa á gjaldeyri af Seðlabankanum. Það myndi minnka tugmilljarða kostnað á hverju ári sem hlýst af gjaldeyrisforða þjóðarbúsins. Í öðru lagi ættu tekjur ríkissjóðs af nýtingu auðlinda landsins, þ.e. sjávarútvegi, orkuiðnaði og ferðaþjónustu, að fara í sjóðinn. Í þriðja lagi ætti ríkissjóður að nýta tekjuafgang sinn þegar vel árar og setja í sjóðinn. Þar með myndi ríkissjóður ganga í takt við Seðlabankann og vextir gætu lækkað.

Stöðugleikasjóðurinn getur gegnt lykilhlutverki í hagstjórn landsins og orðið til þess að vextir lækki með minni sveiflum og því að ríkissjóður og Seðlabanki gangi í takt. Að sama skapi á að nýta stöðugleikasjóðinn til innviðauppbyggingu þegar skórinn kreppir. Það væri til mikils að vinna ef hægt væri að auka stöðugleika í íslensku hagkerfi og nú eru kjöraðstæður til þess.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×