Handbolti

Arnar: Hagaði mér eins og tíu ára krakki í tíu sekúndur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnar Pétursson.
Arnar Pétursson. vísir/vilhelm
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, segist sjá eftir því að hafa sagt þjálfara Vals, Óskari Bjarna Óskarssyni, að „fokka sér“ í leik liðanna í gær.

„Það urðu læti á þarna á ákveðnum tímapunkti. Þetta fór aðeins úr böndunum,“ segir Arnar en hann var mjög ósáttur við að markvörður hans, Stephen Nielsen, skildi ekki bara fá rautt spjald í leiknum heldur einnig blátt. Það þýðir að Stephen gæti verið í banni í næsta leik.

„Það sem gerist er að Alexander Júlíusson skýtur í þrígang í hausinn á honum á 15 mínútum. Ég skildi því Stephen vel að hafa reiðst. Ég get samt ekki séð að hann geri neitt við Alexander. Það sem hann gerir er varla tvær mínútur, hvað þá rautt og aldrei nokkurn tímann blátt spjald.“

Sjá einnig: „Fokkaðu þér“

Arnar segir að Óskar Bjarni hafi öskrað á dómarana og beðið um blátt spjald eftir að Stephen fékk rautt. Það fannst Arnari vera of langt gengið og því brást hann afar illa við með áðurnefndu orðalagi.

„Ég hagaði mér eins og tíu ára krakki í tíu sekúndur og sé vissulega eftir því. Ég var verulega ósáttur við þessi viðbrögð Óskars þar sem hans maður hafði skotið þrisvar í hausinn á markverðinum mínum,“ segir Arnar en þrátt fyrir þetta upphlaup segir hann að það sé allt í góðu á milli hans og Óskars.

„Við Óskar erum góðir félagar og ég ber mikla virðingu fyrir honum. Hann er algjör toppmaður. Mér fannst samt, og finnst enn, að það hafi verið algjörlega út úr korti að hann hafi verið að heimta blátt spjald. Mér fannst hann ganga of langt þar. Auðvitað hefði ég samt ekki átt að segja það sem ég sagði.“

Þessi lið mætast síðan í átta liða úrslitum Olís-deildarinnar en fyrsti leikur liðanna fer fram í Eyjum á sunnudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×