Þingkonan neyddist til þess að loka Facebook reikningi sínum á dögunum, eftir að hafa orðið þar fyrir miklum svívirðingum, sem níu ára gamall sonur hennar rak meðal annars augun í, þar sem svæsin og gróf ummæli mátti meðal annars finna í athugasemdakerfi fréttamiðla á Facebook.
Benti Nicole meðal annars á að íslenska hennar væri ekki fullkomin, en að einhverra hluta vegna hafi orðið til fyrirsagnir út frá ummælum hennar, sem ekki standist skoðun.
Sjá einnig: Þingkona hrökklast af Facebook
Í færslu forsetafrúnnar, þar sem vísað er í frétt Eyjunnar af máli Nichole, þar sem meðal annars er gagnrýnt að hún tali ekki fullkomna íslensku, bendir hún á að forseti Íslands, Guðni Th. hafi í nýlegri heimsókn þeirra til Noregs, talað norsku í ræðum og í viðtölum við fjölmiðla, í stað ensku og að framburð hans hafi heldur betur mátt bæta. Samt hafi honum verið vel tekið.
Hún segist stolt af því að á Alþingi sitji Íslendingar sem fæddust erlendis og segir Eliza að hún viti af eigin reynslu hversu erfitt það getur verið að læra nýtt tungumál á fullorðinsárum.
„Ég tala með hreim, beygi orð rangt, segi stundum tóma vitleysu sem fær fólk til að hlæja eða það skilur ekki neitt fyrr en ég er búin að útskýra hlutina aftur.“
Í færslunni segir Eliza að það sé mikilvægt að virða mikilvægi íslensks máls og reyna að tala hana og skrifa eins vel og hægt er. Það eigi að kenna börnum hér á landi.
„En við verðum að vera umburðarlynd og sýna þeim skilning sem koma að utan og eru að læra málið seinna en þeir sem eru fæddir og uppaldir á Íslandi. Ræðum það sem þingmenn segja frekar en með hvaða hreim þeir gera það.“