Skoðun

Sporin hræða

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Börn voru svipt frelsi sínu og þau voru pyntuð á Kópavogshæli. Eftirlitsaðilar vanræktu að grípa til kerfisbundinna og skipulagðra ráðstafana eða annarra viðbragða til að bregðast við viðvarandi gagnrýni og ábendingum sem fram komu í úttektum, áætlunum og með margvíslegum öðrum hætti. Vistheimilanefnd ályktaði að heilbrigðisráðuneytið, barnaverndarráð Íslands, stjórnarnefnd Ríkisspítala, stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra, stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og landlæknir hefðu vanrækt eftirlitsskyldur sínar.

Stutt er síðan því var fagnað að tíu ár voru liðin frá því að viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT) tók gildi. Síðan hafa nær öll Evrópuríki fullgilt samninginn. Ekki Ísland.

Þann 19. desember 2015 samþykktu 52 þingmenn þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórninni yrði gert að fullgilda valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um bann við pyntingum. Í bókuninni er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila, innlendra og alþjóðlegra, sem falið er að heimsækja reglulega stofnanir sem vista frelsissvipta einstaklinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir pyntingar eða að önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist.

Flest þeirra ríkja sem við berum okkur saman við hafa nú þegar fullgilt bókunina, þar á meðal öll Norðurlöndin.

Þann 19. febrúar síðastliðinn voru 14 mánuðir liðnir frá því þingsályktunartillagan var samþykkt einróma.

Íslenskur afbrotafræðingur starfar nú hjá umboðsmanni norska þingsins við að framfylgja samningnum í Noregi. Allir staðir sem vista frelsissvipta eru undir; þar sem börn eru vistuð, aldraðir með minnisglöp og einstaklingar með bráðageðsjúkdóma. Það væri því í lófa lagið að nýta þá þekkingu sem er til staðar við að koma á slíku eftirliti.

Að svipta einstakling frelsi sínu er mesta inngrip í líf hvers manns. Því fylgir ábyrgð. Þess vegna hafa þjóðir heims komist að sameiginlegu regluverki til að fylgjast með hvernig því er framfylgt. Regluverkið er til staðar, sem og þekkingin. Það er eingöngu vilji íslenskra stjórnvalda til að fullgilda og innleiða OPCAT sem virðist skorta.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×