Skoðun
Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði

Afbakanir og oftúlkanir

Helgi Tómasson skrifar

Svíinn Hans Rosling, sem sumir kölluðu meistara tölfræðinnar, er nýlátinn. Hann var læknir að mennt og áhugamaður um tölfræði. Hann varð frægur fyrir ábendingar um afbakanir fjölmiðla á talnagögnum og hafði þannig meiri áhrif en margir fræðimenn á sviðinu.

Í krassandi forsíðuefni þarf helst að vera fórnarlamb og mætti stundum ætla að meirihluti mannkyns sé í því hlutverki. Dæmi um þetta eru stöðugar vitnanir í hugtakið kynbundinn launamun þar sem gefið er í skyn að gervallt kvenkynið sé fórnarlamb mismununar af völdum karla. Ófullkomin gögn og einfaldir meðaltalsútreikningar leyfa ekki svo hrikalega ályktun. Útilokað er að slík óskynsamleg hegðun og umfangsmikil mismunun geti átt sér stað, þótt einungis sé litið til þess kostnaðar sem af henni hlytist. Gary Becker, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur fjallað um nauðsynleg skilyrði fyrir tilvist varanlegrar mismununar sem eru að kostnaður þeirra sem mismunun stunda sé lítill og að fórnarlömbin finni rækilega fyrir því. Hvorugt skilyrðið er fyrir hendi varðandi meðvitaða launamismunun milli kynja.

Tölfræðiályktanir í könnunum um kynbundinn launamun byggja á því að unnt sé að skýra launamyndun með mjög einföldum breytum á borð við starfsheiti og starfsaldur. Því er síðan haldið fram að það sem ekki tekst að skýra með þessum einföldu breytistærðum sé kynjamismunun. Það sem öllu máli skiptir er að í slíkum útreikningum liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um ástæður þess að starfsfólk með sama starfsheiti og starfsaldur í mismunandi fyrirtækjum getur verið með mishá laun af fullkomlega eðlilegum ástæðum. Umræða um kynbundinn launamun er alþjóðleg og byggir á oftúlkunum í gagnagreiningu. Munur á hegðun kynja er flóknari en svo að lýsa megi henni með einni tölu. Tölfræðingar skrifa ekki upp á að kynbundinn launamunur sé vitrænt hugtak á grundvelli fyrirliggjandi staðreynda – þeir sem það fullyrða falla í gryfjur sem Rosling eyddi ævi sinni í að benda á.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.