Handbolti

Kristján og Svíarnir úr leik eftir tap á móti Frakklandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristján Andrésson gerði vel á sínu fyrsta stórmóti.
Kristján Andrésson gerði vel á sínu fyrsta stórmóti. vísir/epa
Kristján Andrésson og lærisveinar hans í sænska landsliðinu í handbolta eru úr leik á HM 2017 eftir tap á móti gestgjöfum Frakklands, 33-30, í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld. Svíar voru marki yfir í hálfleik, 16-15, en seinni hálfleikurinn var sveiflukenndur framan af þar sem liðin skiptust á að hafa forystu.

Svíarnir voru 26-25 yfir þegar tólf mínútur voru eftir en Frakkarnir settu þá í gírinn, skoruðu fjögur mörk í röð og komust í 29-26. Sænska liðið minnkaði muninn í 30-28 þegar þrjár mínútur voru eftir en franska liðið var sterkara á lokasprettinum.

Kentin Mahe var markahæstur Frakkanna með níu mörk úr tíu skotum en hann fór sjö sinnum á vítalínuna og skoraði í öll skiptin. Nedim Remili kom virkilega sterkur inn í hægri skyttuna í seinni hálfleik og skoraði sex mörk úr átta skotum en Ludovic Fabregas skoraði fimm mörk.

Hjá Svíum var Jim Gottfridson markahæstur með sjö mörk úr níu skotum en Lukas Nilsson skoraði fimm mörk. Mikael Appelgren varði ellefu skot og var með 37 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Frakkarnir halda áfram og mæta Slóveníu eða Katar í undanúrslitum en Svíarnir eru úr leik á fyrsta stórmóti liðsins undir stjórn Kristjáns Andréssonar.

Lærisveinar Kristjáns spiluðu mjög vel á HM og unnu alla nema einn leik í riðlakeppninni. Liðið skoraði mest allra liða í riðlakeppninni en komst ekki í gegnum gestgjafana í Lille í kvöld.

Þar með eru allir Íslendingarnir úr leik á HM. Íslenska landsliðið kvaddi í 16 liða úrslitum líkt og Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson gerðu með sín lið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.