Norska skipasmíðastöðin Havyard Ship Technology tilkynnti í gær um að hún hefði rift samningi við Polar Maritime ehf. um smíði á Fáfni Viking, nýju skipi þess. Polar Maritime er dótturfélag Fáfnis Offshore. Stjórnarformaður Fáfnis segir að þetta muni ekki hafa nein áhrif á félagið.
Ástæða riftunarinnar er sú að Fáfni hefur reynst erfitt að finna verkefni fyrir skipið. Lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu skiptir þar miklu máli. Skipið var hugsað til að þjónusta olíuiðnað og vinnslu í Norðursjó. Án verkefna hefur lánsfjármögnun reynst ómöguleg. Hækkun á síðustu mánuðum hefur ekki dugað til að skapa verkefni fyrir skipið.
Samningur Havyard og Fáfnis um smíði Fáfnis Viking var gerður í apríl 2014 en kostnaður við smíðina var áætlaður 350 milljónir norskra króna. Það er andvirði rúmlega 4,6 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag en miðað við stöðuna þá var áætlaður kostnaður 6,6 milljarðar. Upphaflega átti að afhenda skipið í mars 2016 en því var síðan frestað í tvígang, fyrst til júní 2017 og síðar til apríl 2019.
Vinnu við skipið hafði verið hætt á haustmánuðum ársins 2015 og hefur skel þess staðið nær óhreyfð frá þeim tíma. Skipasmíðastöðin mun krefjast þess að Fáfnir Viking verði seldur upp í skuldir Polar Maritime við sig. Þá er að auki farið fram á greiðslu bóta vegna vanefnda á samningnum.
„Þetta hefur engin áhrif á rekstur Fáfnis Offshore,“ segir Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis. Jóhannes tók við stjórnarformennsku félagsins af Bjarna Ármannssyni í upphafi síðasta árs.
„Smíðaverkefnið var aðskilið frá Fáfni með samningum sem gerðir voru í mars 2015. Það er því í sér félagi. Á milli félaganna er engin ábyrgð eða skuldbindingar og smíðin því algerlega einangruð,“ segir Jóhannes.
Fyrir á Fáfnir Offshore skipið Polarsyssel en það var sjósett í mars árið 2014. Skipið er hið stærsta í Íslandssögunni en smíði þess kostaði 7,3 milljarða króna. Sem stendur er það brúkað til birgðaflutninga og til eftirlits við Svalbarða.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Segir riftunina ekki hafa áhrif á starfsemi Fáfnis

Tengdar fréttir

Telur Fáfni geta misst eina verkefni sitt eftir uppsögn Steingríms
Bjarni Ármansson er ekki lengur stjórnarformaður Fáfnis en hann tók við starfinu síðasta sumar.

Íslandsbanki fjarlægði viðtal við forstjóra Fáfnis af vefsíðu sinni
Viðtalið var tekið út eftir að Steingrími Erlingssyni var sagt upp sem forstjóra Fáfnis.

Vildu lækka hlutafé Fáfnis um 85% á hluthafafundi í desember
Til stóð að lækka hlutafé í Fáfni Offshore um allt að 85 prósent á hluthafafundi sem halda átti 7. desember síðastliðinn.

Fjárfestar hafa áhuga á að greiða afborgun Fáfnis og auka hlutafé
Danskt félag lýsti áhuga á að borga afborgun Fáfnis Offshore til skipasmíðastöðvarinnar Havyard og leggja til nýtt hlutafé. Boðinu var hafnað.

Höfnuðu tilboði í hluti í Fáfni
Heimildir fréttastofu herma að fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins hafi boðið í hlutina.