Íslandsbanki hefur fjarlægt upptöku af viðtali við Steingrím Erlingsson, stofnanda og fyrrverandi forstjóra Fáfnis, af vef sínum. VÍB, eignastýring Íslandsbanka, stóð fyrir fræðslufundi í nóvember árið 2014 þar sem rætt var við Steingrím um Fáfni og vindmylluverkefni sem hann var þá að vinna að.
„Af tillitsemi við hann erum við búin að taka það út,“ segir Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB. Hann segir að ekki hafi verið haft samband við Steingrím áður en efnið var tekið út.
„Þetta var myndband sem átti meira við á þeim tíma þar sem þetta var tekið upp þar sem verkefnin voru stutt á veg komin og enn þá ný og í rauninni höfum við ekki sérstaka ástæðu til að hafa það enn þá inni,“ bætir hann við. „Við höfum áður tekið út myndbönd sem eru orðin gömul og úrelt þar sem efnið á ekki við í dag.“
Akur, sjóður í rekstri Íslandssjóða, dótturfélags Íslandsbanka, keypti 30 prósenta hlut í Fáfni á 1.260 milljónir króna mánuði eftir fundinn. Hluthafar í Akri eru 13 lífeyrissjóðir, VÍS og Íslandsbanka.
Steingrími var sagt upp sem forstjóra Fáfnis í desember og var myndbandið tekið út af vefsíðu bankans í kjölfarið.
Íslandsbanki fjarlægði viðtal við forstjóra Fáfnis af vefsíðu sinni

Tengdar fréttir

Telur Fáfni geta misst eina verkefni sitt eftir uppsögn Steingríms
Bjarni Ármansson er ekki lengur stjórnarformaður Fáfnis en hann tók við starfinu síðasta sumar.

Forstjóra Fáfnis sagt upp
Steingrími Erlingssyni, forstjóra og stofnanda Fáfnis Offshore, var sagt upp störfum í vikunni.

Fáfnir Offshore tapar 50 milljónum
Olíuvinnslufyrirtækið Fáfnir Offshore tapaði 3,5 milljónum norskra króna á síðasta ári, jafnvirði 50 milljóna íslenskra króna miðað við núverandi gengi.