Handbolti

Lærisveinar Guðmundar í vandræðum með Ungverja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins. vísir/getty
Danska landsliðið vann þriggja marka sigur á Ungverjum í kvöld, 24-21, í seinni leik kvöldsins í Bygma æfingamótinu en Ísland vann fyrr í dag sigur á Egyptum.

Ólympíumeistarar Dana voru í miklum vandræðum með Ungverja fram eftir öllum leik en tryggðu sér sigur með góðum endaspretti.

Ungverjar voru skrefinu á undan í fyrri hálfleiknum og 10-8 yfir í hálfleik. Ungverjar náðu síðan fjögurra marka forystu, 15-11 í upphafi seinni hálfleiks.

Danir skoruðu næstu þrjú mörk og komust síðan yfir í 19-18. Þeir voru síðan mun sterkari í lokin og unnu lokamínúturnar 5-2.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins, gaf sínum mönnum frí yfir jól og áramót og liðið var lengi í gangi í leiknum í Álaborg í kvöld. Liðið sýndi hinsvegar styrk sinn undir lokin og þá áttu Ungverjar fá svör.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×