Handbolti

Aron Pálmars: Ég vonast til að vera klár fyrir fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson Vísir/EPA
Aron Pálmarsson var gestur í Akraborginni á X977 og ræddi þar um stöðuna á sér. Aron er bjartsýnn að ná því að spila með íslenska landsliðinu á HM í Frakklandi sem hefst í næstu viku.

Aron er besti leikmaður íslenska landsliðsins og því gríðarlega mikilvægt að hann geti verið með liðinu sem hefur misst út marga reynslumikla og öfluga menn á síðustu mánuðum.

„Ég var í þessari sprautu fyrir þremur dögum og það gengur nokkuð vel. Líkaminn er að taka henni ágætlega og það bendir allt þess að ég munu fljúga út á mánudaginn, hitta strákana í Danmörku og fljúga með þeim til Frakklands,“ sagði Aron Pálmarsson í Akraborginni.

„Ég væri til í það að þetta gengi aðeins hraðar fyrir sig enda búið að taka óþarflega langan tíma. Það eru ýmsar ástæður fyrir því,“ sagði Aron.

„Við erum búnir að gera allt sem við getum gert í teymi landsliðsins hérna heima. Eins og ég hef sagt áður þá erum við í kapphlaupi við tímann. Þessi sprauta var síðasti sjens og þetta lítur ágætlega út núna,“ sagði Aron.

„Það getur vel verið að maður vakni eitthvað slæmur á sunnudaginn eða á mánudaginn. Ég geri allt sem ég get og er hjá Ella í sjúkraþjálfun. Þessi sprauta fór vel í mig þannig að ég er þokkalega bjartsýnn núna,“ sagði Aron.

Gæti hann hugsað sér að byrja utan hóps til að fá meiri tíma til að ná sér af meiðslunum.

„Ef þjálfurunum finnst það ákjósanlegur kostur þá er ég að sjálfsögðu klár í það. Ég vonast til að vera klár fyrir fyrsta leik en ef ekki og þeir vilja samt taka mig með og skipta mér inn þá er ég að sjálfsögðu klár í það,“ sagði Aron.

Það er hægt að hlusta á allt viðtalið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×