Sigurður Atli útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hélt þaðan í meistaranám í École Supérieure des Beaux-Arts de Marseille árið 2011. Þar rak hann sýningarrýmið Salon du salon og hefur hann síðan þá sýnt hér heima, í Frakklandi og Japan. Fyrir utan að vera að opna sýningu í Galleríi Laugalæk stundar hann kennslu við Listaháskóla Íslands og hefur þar umsjón með prentverkstæði skólans.
„Ég er búinn að vera að vinna með ósjálfráða teikningu í nokkur ár – það er teikning sem er gerð í hagnýtum tilgangi frekar en með listrænum ásetningi. Þá er það annaðhvort að prófa pennann til að sjá hvernig blekið flæðir í honum eða prufur. Mínar teikningar eru unnar út frá því, þessum prufum. Ég takmarka mig við það og síðan eru þetta fletir sem eru í stöðluðum stærðum, til dæmis A6, sem er stærðin á blöðum í ritfangabúðum þar sem þú getur prófað pennana. Og síðan er þetta A4 og upp í A3, þessi staðlaða pappírsstærð.“

„Það kom út frá bæði leit minni að einhverri hreinni teikningu, teikningu áður en ásetningurinn verður til og síðan líka vegna þess að ég fór að hugsa þetta sem ummerki, eitthvað sem maður skilur eftir sig og er ummerki tilvistar. Það er þessi lína, þegar maður fer að pæla í línunni sjálfri í frummynd sinni – þarna var einhver, þó að hann hafi ekki verið að skilja viljandi eftir sig ummerki þá eru þetta einhvers konar leifar, fótspor og eitthvað sem er ekki álitið gert af listrænum ásetningi. Það er listræn teikning og síðan önnur teikning – síðan er ég að reyna að setja fram þessa aðra teikningu sem listræna teikningu.“
Hvernig hefur þú verið að vinna þetta krot ef það er ósjálfrátt?
„Ég hef verið að safna þessum teikningum í mörg ár í ritfangabúðum úti um allan heim og það hefur verið einhvers konar rannsóknarvinna fyrir mig þegar ég er á ferðalögum. Það kemur alltaf fyrir þessi sama teikning, um allan heim, þetta er einhvers konar bylgja – þetta er ekki bein lína, heldur bylgjótt lína. Eftir að ég fór að pæla í þessu fór ég að vinna í þessu sjálfur – maður þarf að vera algjörlega óundirbúinn og þetta þarf að koma alveg ósjálfrátt, maður þarf að gera teikninguna án þess að hugsa. Þegar maður skapar list þá dettur maður í ákveðinn hugsunarhátt en þarna má maður alls ekki fara þangað,“ segir Sigurður Atli að lokum.
Sýning hans verður opnuð í Galleríi Laugalæk í dag klukkan fimm. Galleríi Laugalækur er hluti af kaffihúsinu Kaffi Laugalæk.