Skoðun

Hvað er kynbundinn launamunur?

Helgi Tómasson skrifar
Algeng skilgreining á kynbundnum launamun er að hann sé prósentutala unnin upp úr launakönnun þar sem borin eru saman laun karla og kvenna.

Aðferðin byggir á því að störf, menntun og starfsreynsla séu eins verðlögð hjá öllum einstaklingum í öllum fyrirtækjum og stofnunum. Laun þessa staðlaða einstaklings eru borin saman við laun karla og kvenna. Munurinn á meðaltölum kynjanna er síðan kallaður kynbundinn launamunur.

Þar sem niðurstöður eru yfirleitt þær að það halli á konur er ályktað að öll fyrirtæki og stofnanir mismuni konum (jafnmikið) í launum sem nemur þessari prósentu.

Þetta er kolrangt af mörgum ástæðum. Má þar nefna að mikilvægir þættir sem áhrif hafa á laun eru ekki teknir með í reikninginn, s.s. færni, sjálfstæði, frumkvæði, ábyrgð og álag. Þessa þætti er ekki að finna í þeim launakönnunum sem ályktanir um kynbundinn launamun eru dregnar af en í vísindum hagrannsókna og tölfræði eru ýmsar leiðir til að takast á við slíkt.

Annar stór galli á þessum könnunum er sá að hópar starfsfólks í mjög mismunandi fyrirtækjum eru lagðir saman. Sá möguleiki er fyrir hendi að ekkert fyrirtæki eða stofnun stundi þá mismunun gagnvart konum sem menn þykjast lesa út úr meðaltalinu um kynbundinn launamun.

Gott innlent dæmi er launakönnun á vegum félagsmálaráðuneytisins frá árinu 2006 sem greindi frá meiri kynbundnum launamun á öllum vinnumarkaðnum (15,7%) en á hvorum hluta hans, þ.e. opinbera geiranum (11,8%) og einkageiranum (15,5%). Hluti kynbundins launamunar varð því til í samlagningu þessara tveggja markaða. Eðli vinnumarkaðarins er að laun eru mishá. Sama menntun er misverðmæt í mismunandi fyrirtækjum og stofnunum. Verkaskipting hjóna skiptir einnig máli. Giftir karlar hafa miklu hærri laun en ógiftir á sama aldri og áhrif hjónabands á laun eru miklu meiri hjá körlum en konum. Af framangreindum ástæðum (og fleirum) er sennilegt að vottun fyrirtækja samkvæmt jafnlaunastaðli muni hafa óveruleg áhrif á mat á kynbundnum launamun.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.