Skoðun

Tala niður til barna

Gunnlaugur Stefánsson skrifar

Það er skrýtin árátta í sumum fjölmiðlum að tala niður til fermingarbarna, efast um heilindi barnanna, gefa í skyn að þau fermist fyrir gjafirnar og veislan sé óþarfa tilstand. Svo er lagst í útreikninga og fermingin metin til fjár, eins og fréttastofa Ríkisútvarpsins gerði. Minna fer fyrir fallegum minningum í fjölmiðlum sem flestir eiga um fermingu sína. Langtum fremur er frægðarfólki hampað sem telur sér til vegsauka að gera lítið úr fermingunni. Þrátt fyrir andróðurinn, þá vilja langflest börn fermast og þeim fjölgar í vor sem velja að gera það í Þjóðkirkjunni.Er viðeigandi að fjölmiðlar spyrji fólk í aðdraganda stórafmælis hvort veislan sé fyrir gjafirnar og hvað afmælið kosti?Fermingin í kirkjunni er rótfastur siður í þjóðlífinu og hefur staðist tímans tönn. Fermingarfræðslan var fyrsti skólinn fyrir öll börnin í landinu og er því samofin menningu þjóðarinnar. Þau sem gera lítið úr fermingunni mættu kynna sér þá sögu.Ég hef fermt börn í rúmlega 30 ár. Það hefur verið gefandi samstarf. Í fermingarfræðslunni er grunnstefið kristinn kærleikur. Þar ræðum við um lífið og tilveruna, m.a. hamingju og ábyrgð, trú og efa, sorg og mótlæti,- og margt sem ekki er á dagskrá í grunnskólanum og eigum um það traust samstarf með foreldrum.Fermingardagur er falleg tímamót og sannkölluð hátíð. Heilagur dagur barns sem er að verða unglingur. Skilaboð foreldra og ástvina eru tær í einlægri fyrirbæn: „Ég elska þig“ sem helgar von um trausta samfylgd með minnisstæðum hætti í hörðum heimi. Veislan, sem hefst í raun við altarið í kirkjunni, er samfögnuður þar sem þessi skilaboð eru í fyrirrúmi og fermingarbarnið finnur innilega að það skiptir máli. Gjafirnar bera vitni um tímamótin þar sem þarfir barnsins eru að breytast og börnin fá hvort sem þau fermast eða ekki. Það sýnir reynslan.Ekki er stórmannlegt að gera lítið úr börnum sem fermast. Nær er að fagna og leggja alúð við traustan sið sem blómgast í trú, von og kærleika.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.