Skoðun

Hversu oft viltu borga fyrir húsið þitt?

Jóna Sólveig Elínardóttir skrifar
Að geta safnað fyrir útborgun og komið yfir sig þaki á sanngjörnum kjörum. Að geta skipulagt fjármál heimilisins til lengri tíma. Að geta sparað fasta upphæð mánaðarlega, án þess að hún rýrni og vitað þannig hvenær ég get farið með fjölskylduna í sumarfrí. Að vita hvað matur, drykkur, gallabuxur, strigaskór, kuldagalli og allt hitt, kostar að jafnaði.

Atvinnuöryggið sem felst í því að vita að vinnustaðurinn minn býr við stöðugt rekstrarumhverfi. Þetta ætti auðvitað að vera sjálfsagt í okkar heimshluta?… en það er það ekki – ekki á Íslandi. Það er ekki í boði og raunar man ekkert okkar eftir slíkum stöðugleika. Ástæðan: Krónuhagkerfið.

Þetta þýðir ekki að lífskjör séu slæm á Íslandi. Þetta þýðir að enn er verk að vinna. Og til þess erum við stjórnmálamenn kjörnir: til að gera betur. En þá þarf líka að horfast í augu við rót vandans: Krónuvandann. Þeir, sem neita að viðurkenna þá sífelldu óvissu sem krónan veldur íslenskum heimilum og fyrirtækjum, þurfa að hugsa sinn gang. Það felst enginn stöðugleiki í stöðugri óvissu.

Það þýðir ekki lengur að bjóða Íslendingum upp á að vita ekki hvað húsið þeirra mun kosta á endanum. Það eina sem við vitum fyrir víst er að við þurfum að borga eignina margfalt, á meðan nágrannar okkar í Evrópu borga húsnæðið sitt 1,5-2 sinnum. Hér munar milljónum króna sem fólk gæti sannarlega notað í þarfari og skemmtilegri hluti en okurvaxtagreiðslur.

Þetta er ástæðan fyrir því að við í Viðreisn höfum talað og munum halda áfram að tala hátt og skýrt fyrir raunhæfum lausnum á krónuvandanum. Við munum áfram tala fyrir myntráði – að halda krónunni en binda hana við annan gjaldmiðil – og fyrir framtíðarmöguleikum þess að taka upp evru með ESB-aðild. Viðreisn mun aldrei hætta að tala og berjast fyrir stöðugleika fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu með almannahagsmuni, en ekki sérhagsmuni, að leiðarljósi.

Höfundur er þingmaður og varaformaður Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×