Viðskipti innlent

Pressan fékk lán en ekki hlutafé

Björn ingi Hrafnsson.
Björn ingi Hrafnsson. vísir/ernir
Fjárfestar sem ætluðu að taka þátt í hlutafjáraukningu Pressunnar hafa dregið sig til baka, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Talið er að sú endurfjármögnun sem unnið hefur verið að og var kynnt í fréttatilkynningu muni ekki klárast eins og að var stefnt.

Pressan er móðurfélag Vefpressunnar, DV og Birtíngs. Heildarskuldir samstæðunnar nema í dag yfir 700 milljónum króna. Stendur félagið meðal annars í skuld við Tollstjóra og lífeyrissjóði.

Forsvarsmenn fjárfestingarfélagsins Dalsins, sem eru Róbert Wessmann og félagar, vildu ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Þeir eru meðal þeirra fjárfesta sem tilkynntu um fyrirhugaða aðkomu sína að hlutafjáraukningunni.

Samkvæmt tilkynningu sem send var fjölmiðlum um miðjan apríl hugðust þeir setja 155 milljónir í félagið. Fréttablaðið hefur þó heimildir fyrir því að fjárfestingarfélagið hafi lánað umtalsverða fjármuni undanfarnar vikur til rekstursins sem hafi meðal annars nýst til greiðslu opinberra gjalda.

„Það er hluti búinn að borga, en aðrir ekki,“ segir Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Pressunnar. Hann segir þó að enn sé unnið í hlutafjáraukningunni. Hann staðfestir að Dalurinn hafi ekki greitt það hlutafé sem áformað var, en hafi veitt Pressunni lán. Hann segir rekstrarumhverfi fjölmiðla vera erfitt, eins og sjá megi á afkomu þeirra flestra. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×