Innlent

Sælgætisgerðin Kólus í klípu

Jakob Bjarnar skrifar
Sótt er að Kólusi úr ýmsum áttum og nú gengur þessi falsaða mynd um netið.
Sótt er að Kólusi úr ýmsum áttum og nú gengur þessi falsaða mynd um netið.
Mynd sem virðist vera gömul auglýsing frá Kólus sælgætisgerð, sem er fimmtíu ára gamalt fyrirtæki, er nú á flakki um netið. Stíll myndarinnar er sem frá 6. áratug síðustu aldar, þegar staða kynjanna var í ólíkt fastari skorðum en nú er. Eiginmaðurinn hefur tekið eiginkonuna á kné sér og veitir henni ráðningu fyrir að hafa ekki keypt besta lakkrísinn – nefnilega Sambó.

Við nánari athugun má sjá að hér hefur einhver óprúttinn húmoristi tekið gamla auglýsingu sem leit dagsins ljós um miðja síðustu öld þar sem verið er að auglýsa Chase & Sandborn kaffi. Og sett við íslenskan texta með myndvinnsluforriti. Ef maðurinn þinn kemst að því að þú kaupir ekki alltaf besta lakkrísinn ... þá áttu ekki gott í vændum. Og svo framvegis.

Eftir því sem Vísir kemst næst er þetta upprunalega auglýsingin, sem Sambógrínið byggir á.
Ýmsir beina nú spjótum sínum að Kólus vegna umbúða um Sambó lakkrís, en umbúðirnar fara fyrir brjóstið á þeim sem telja sig geta greint kynþáttafordóma í myndskreytingunni. Hún byggir á barnabók sem kom út um aldamótin 1900, er eftir Helen Bannermann, skoska konu sem bjó á Indlandi lengi og fjallar um indverskan dreng sem gabbar tígrisdýr en engin tígrisdýr eru í Afríku. Hins hefur menningarheimum eitthvað slegið saman hjá höfundi því sagan heitir upphaflega The Story of Little Black Sambo. Í nýrri útgáfu heitir hún The Story of Little Babaji.

Gústaf Hannibal skrifaði grein í Grapevine og hvetur til þess að fólk sniðgangi Kólus, eða sendi tölvupóst til fyrirtækisins þar sem þessum umbúðum er mótmælt.

Vísir fjallaði um málið um helgina og vakti málið verulega athygli. Forsvarsmenn Kólus hafa vísað því alfarið á bug að umbúðirnar lýsi kynþáttahyggju. Mannfræðingurinn Kristín Loftsdóttir prófessor gefur hins vegar engan afslátt og segir merkilegt að Kólus vilji tengja vöru sína við svona gamla kynþáttafordóma.

Myndin af sælgætisumbúðunum er nú horfin af vefnum, það er hjá dreifingaraðilanum sem er Ó.Johnson & Kaaber ehf, en forsvarsmenn fyrirtækisins, sem vilja ekki láta neinn bilbug á sér finna, segja það hafa verið fyrir mistök. Hafa sprottið upp talsvert heitar umræður um málið á athugasemdakerfinu þar sem sitt sýnist hverjum: Ýmist er talað um nornaveiðar eða inngróinn rasisma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×