Lífið

Fólkið á Airwaves: „Mér líður eins og ég sé á annarri plánetu“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Carolyn O'Connor vann fyrir SXSW hátíðina og hefur dreymt um að koma á Airwaves í tíu ár.
Carolyn O'Connor vann fyrir SXSW hátíðina og hefur dreymt um að koma á Airwaves í tíu ár. Vísir/Vilhelm
Carolyn O‘Connor er ein þeirra fjölmörgu erlendu ferðamanna sem hafa gert sér ferð til Íslands til að fara á Iceland Airwaves. Hún er frá Austin í Texas og segist hafa viljað koma á hátíðina í tíu ár. „Ég er mikill tónlistarunnandi. Ég vann fyrir South By Southwest hátiðina og þannig kynntist ég hátíðinni,“ segir Carolyn í samtali við Vísi.

South By Southwest, eða SXSW, er tónlistar- og kvikmyndahátíð sem haldin er árlega í Austin. Mikil áhersla er lögð á nýja listamenn á hátíðinni og hafa þón okkrir íslenskir tónlistarmenn komið þar fram. Carolyn er því alkunnug tónlistarhátíðum.

Aðdáandi Múm frá aldamótum

„Ég veit af fenginni reynslu við að vinna á hátíðum og að fara á aðrar tónlistarhátíðir að það er best að velja stað þar sem kannski tvær sveitir heilla en vera allt kvöldið, þá uppgötvar maður helst eitthvað skemmtilegt,“ segir Carolyn, en hún er vel skipulögð og með nokkrar íslenskar hljómsveitir sem hún vill sjá.

„Ég er mjög spennt fyrir GKR, Mammút og Samaris. Puffin Island er líka á listanum, ég var mjög hrifin af þeim þegar ég kíkti á þau á netinu. Svo er ég mjög hrifin af Grúsku Babúsku. Þau minna mig svolítið á Múm og ég hef verið mikill aðdáandi Múm frá árinu 2000,“ segir Hannah.

„Mig langar líka að sjá Frankie Cosmos, ég hef aldrei séð þau á tónleikum en hef verið aðdáandi í svolítinn tíma. Margaret Glaspy virðist líka vera góð og Dream Wife. Svo verður maður að sjá The Sonics, þó þeir séu bara með einn upprunalegan hljómsveitarmeðlim frá sjöunda áratugnum.“

Ber mikla virðingu fyrir Airwaves

Hún segir að þó hún hafi mikla reynslu af tónlistarhátíðum finnist henni ekki strembið að heimsækja aðrar hátíðir.

„Mér fannst það fyrst þegar ég byrjaði hjá SXSW. Þá hafði ég miklar væntingar og fólk var ekki að standast þær. En nú er ég aðeins afslappaðri. Ég hef líka borið virðingu fyrir Iceland Airwaves svo lengi að ég hef engar áhyggjur.“

Carolyn náði þrem dögum á Íslandi áður en hátíðin byrjaði og nýtti þá vel til að skoða sig um.

„Landið kom gífurlega á óvart. Mér líður eins og ég sé á annarri plánetu. Þetta er náttúra sem ég hef aldrei upplifað áður. Ég er mikið fyrir útiveru, geng mikið á fjöll, og hef séð mikið en ekkert í líkingu við þetta. Fossarnir, hestarnir og kindurnar, ég er bara alveg undrandi,“ segir Carolyn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×