Innlent

Framboðsfrestur styttur sem og utankjörfundur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á að hefjast síðar samkvæmt frumvarpinu.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á að hefjast síðar samkvæmt frumvarpinu. vísir/valli
Framboðsfrestur skal styttur sem og utankjörfundarkosning. Þetta er meðal þess sem felst í tillögudrögum vinnuhóps um endurskoðun kosningalaga.

Vinnuhópurinn hefur skilað af sér drögum að skýrslu og frumvarpi en bæði má skoða inn á þingvefnum.

Í tillögunum felst meðal annars að öll framboð skuli tilkynnt skriflega viðeigandi yfirkjörstjórn eigi síðar en á hádegi 36 dögum fyrir kjördag. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að framboðum skuli skilað fimmtán dögum fyrir kjördag.

Framboðslistar liggi fyrir þegar utankjörfundur hefst

Í drögunum er að auki gert ráð fyrir því að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjist síðar en áður. Nú hefur það verið svo að atkvæðagreiðsla utankjörfundar hefjist svo fljótt sem unnt er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Afleiðingin af þessu hefur verið sú að hægt hefur verið að kjósa löngu áður en það liggur fyrir hvaða listar eru í framboði.

Í tillögunum er lagt til að þessu verði breytt. Hægt verði að greiða atkvæði utankjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að framboðslistar hafa verið auglýstir en þó eigi síðar en 29 dögum fyrir kjördag.

Lagt er til að landskjörstjórn auglýsi gild framboð þrjátíu dögum fyrir kosningar. Auglýsingin verði birt í B-deild Stjórnartíðinda og á kosningavef ráðuneytisins. Gild framboð verði eigi lengur auglýst í dagblöðum.

Landskjörstjórn ákveður framboðum listabókstaf og heldur skrá yfir stjórnmálasamtök. Þá er sú breyting einnig lögð til að heimilt verði að safna meðmælendum með tilkynningu stjórnmálasamtaka um þátttöku í kosningum og framboðslistum með rafrænum hætti.

Eftirlitsmenn og breytt meðferð kjörseðla

Drögin gera ráð fyrir því að tekin verði upp heimild fyrir innlenda og erlenda kosningaeftirlitsmenn til að fylgjast með framkvæmd kosninga. Þeir þurfi að bera sérstök skilríki. Einnig er skerpt á ákvæðum laganna um umboðsmenn framboða.

Að endingu er vert að taka fram að lagt er til að breyta ákvæðum kosningalaga um meðhöndlun kjörseðla frá prentun þeirra og þar til þeir enda í kjörkassanum. Til að mynda verði ekki lengur haldið sérstakt bókhald um fjölda notaðra og ónotaðra kjörseðla.

Lagt er til að kjósandi fái kjörseðil afhentan í kjörfundarstofu, fari með hann í kjörklefa og kýs í einrúmi. Að því loknu geri hann grein fyrir sér hjá kjörstjórn eða fulltrúa hennar. Þá er gengið úr garði um að kjósandi eigi rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni. Að því loknu stimplar kjörstjórn á bakhlið kjörseðilins og kjósandi leggur seðilinn í kjörkassa í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar.

Skýrslu- og frumvarpsdrögin má lesa með því að smella hér. Þeir sem vilja koma með athugasemdir eða ábendingar við frumvarpsdrögin skulu senda vinnuhópnum athugasemdir sínar á kosningalog@althingi.is fyrir lok vinnudags, föstudaginn 5. ágúst næst komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×