Innlent

Löggan leggur til atlögu við hávaðaseggi og ökufanta vestur í bæ

Jakob Bjarnar skrifar
Lögreglan ætlar að reyna að ná í skottið á þeim sem iðka sínar bílakúnstir, með tilheyrandi hávaða og hættu, úti á Granda.
Lögreglan ætlar að reyna að ná í skottið á þeim sem iðka sínar bílakúnstir, með tilheyrandi hávaða og hættu, úti á Granda.
„Þetta er gamalt vandamál og nýtt,“ segir Sigurbjörn Jónsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni. Vísir bar undir hann óróa, hávaða og ónæði sem hefur náð nýjum hæðum vestur í bæ hvar ungmenni spyrna bílum sínum með tilheyrandi hávaða og látum. Þessi læti standa langt fram á nótt og eru íbúar í Vesturbæ algerlega búnir að missa þolinmæðina vegna ástandsins. Eins og Vísir greindi frá fyrr í morgun.

Ökufantar og gúmmítöffarar eru að gera Vesturbæinga brjálaða

Sigurbjörn segir að nú standi til að ganga í málið. Hann segir að þarna hafi verið gæsla en nú standi til að auka hana. „Þeir eru að spyrna þarna og fara fljótlega eftir að við komum, en við náum alltaf einhverjum. En, við ætlum nú að fara að kíkja á þetta betur og auka gæslu.“

Sigurbjörn lýsir því að þarna stundi menn spyrnukeppnir, þá sé bara sett upp lína og gefið í. Þarna úti á Granda er bein braut sem virðist henta vel í slíkt. Enginn vafi leikur á um að þarna er verið að brjóta margvísleg lög. Vegfarendum ber, samkvæmt umferðarlögum, að sýna tillitssemi og ekki þarf blöðum að fletta þegar verið er að spyrna. Þá er um hraðakstur að ræða.

Sigurbjörn segir að grípa megi til ýmissa aðgerða, svo sem setja upp hraðahindranir og annað slíkt til að koma í veg fyrir kappaksturinn. Vísir greindi frá því að svo virðist vera sem þeir sem þarna komi saman viti um ferðir lögreglunnar, því þegar hún kemur dettur allt í dúnalogn, en um leið og hún er farin byrjar ballið aftur.

„Þú býrð í Vesturbænum draslið þitt svo við hverju fokking býst þú?“

„Já, þeir eru með bíla víðs vegar, þeir vita alveg hvar við erum og hvaðan við komum. Tæknin er orðin svo mikil, en við ætlum að reyna að fara fram úr þeim. Ná einhverju í gegn með því – förum á ómerktum bílum og reynum að hafa eftirlit með þessu. Ef við höfum höfum mannskap. Þetta er alltaf spurningin um það. En, það er ekki hægt að hafa þetta svona.“

Sigurbjörn segir að ýmis ráð séu til, svo sem þau að auka eftirlit og þá senda ómerkta bíla á vettvang þannig að ökuþórarnir eigi erfiðara með að mónitora ferðir lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×