Allt frá því ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar tók við fyrir um hálfum mánuði hefur stjórnarandstaðan þrýst á að stjórnin birti lista yfir þau mál sem hún vill klára fyrir kosningar og það gerðist loksins á fundi formanna stjórnarflokkanna með leiðtogum stjórnarandstöðunnar í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir Alþingi að störfum og eðlilegt að það afgreiði þau mál sem liggja fyrir.
„Við ræddum hér í dag, eftir fund okkar Bjarna með forseta þingsins á miðvikudag, um að fara fram á endurskoðun á starfsáætlun þingsins með tilliti til þess að við erum að leggja fram þingmálaskrá sem við kynntum fyrir stjórnarandstöðunni hér í dag,“ sagði Sigurður Ingi að loknum fundi.

Nokkur sátt er um að flest stóru málanna nái fram að ganga.
„Það eru, eins og ég hef áður sagt, mál sem tengjast húsnæðismálunum, fjármálamarkaði, afnámi hafta, heilbrigðismálum og önnur slík mál,“ segir forsætisráðherra. Þá segir Sigurður Ingi reiknað með sumarþingi. Fundað verði inn í byrjun júní og síðan tekið hlé vegna forsetakosninga.
„Síðan kæmi þing aftur saman í ágúst til að geta lokið þessu og ef það gengur vel eftir sjáum við fyrir okkur að kosningar gætu orðið seinnipartinn í október,“ segir Sigurður Ingi.
„En þetta ætti að gefa öllum hæfilegt tækifæri til að skipuleggja sig og fyrir þingið til að ljúka sínum málum. Flokkana til að skipuleggja sín áherslumál og sitt innra skipulag og klára það á næstu mánuðum ,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Hann reiknar með að leggja fram fjárlagafrumvarp og að ríkisfjármálaáætlun til næstu ára verði afgreidd.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir stjórnarandstöðuna enn þeirrar skoðunar að best hefði verið að boða strax til kosninga.
„Við í sjálfu sér getum ekki gefið eitthvað fyrirfram loforð um að við séum sammála þessum málum eða að við styðjum þau í öllum tilvikum. En listinn er þó alla vega kominn fram og við vitum hvað ríkisstjórnin leggur upp,“ segir Árni Páll. Hér má sjá málalista ríkisstjórnarinnar í heild sinni.