Innlent

Segja háskólastarfi á Íslandi stefnt í voða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Háskólaráð Háskóla Íslands skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun sína fyrir árin 2017-2021
Háskólaráð Háskóla Íslands skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun sína fyrir árin 2017-2021 vísir/ernir
Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir miklum vonbrigðum með að „háskólar verði skildir eftir í þeirri sókn til uppbyggingar innviða íslensks samfélags sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 felur í sér.“

Ályktun þess efnis var samþykkt einróma á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands 2. júní síðastliðinn.

Í henni segir að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir verulegri heildarútgjaldaaukningu í ríkisfjármálaáætlun eigi það ekki við um fjárveitingar til háskóla- og rannsóknarstarfs.

„Í fjárhagsáætlun Háskóla Íslands sem staðfest var af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í febrúar sl. er gert ráð fyrir 300 m.kr. rekstrarhalla á yfirstandandi ári. Því er ljóst að starfsemi Háskólans hvílir á mjög veikum fjárhagslegum grunni og er henni stefnt í bráða hættu nema til komi auknar fjárveitingar,“ segir í ályktuninni.

Vitnað er til stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem sagt er að ákvæðum samings um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands verði fylgt en sjóðurinn hefur það að meginmarkmiði að tekjur Háskóla Íslands verði sambærilegar við tekjur háskóla á öðrum Norðurlöndum.

„Ítrekað hefur réttilega komið fram í orðum mennta- og menningarmálaráðherra að háskólastigið á Íslandi sé verulega vanfjármagnað. Þetta staðfestir samanburður við háskóla á Norðurlöndum og skýrslur OECD um fjármögnun háskólanáms með óyggjandi hætti,“ segir ennfremur í ályktuninni að samþykkt stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs geri ráð fyrir að framlag á hvern háskólanema skuli vera sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndunum.

„Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 er ekkert sem styður við þessa samþykkt, nema ætlunin sé að fækka nemendum sem eiga kost á háskólanámi hérlendis um mörg þúsund og halda fjárveitingum óbreyttum og/eða hefja almenna töku skólagjalda,“ segir í ályktuninni.

Skorar háskólaráð á ríkisstjórnina og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun sína fyrir árin 2017-2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×