Innlent

Styttist í skort á flug- mönnum með reynslu

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Rúmlega 400 flugmenn starfa hjá Icelandair í sumar og rúmlega 100 hjá Wow air.
Rúmlega 400 flugmenn starfa hjá Icelandair í sumar og rúmlega 100 hjá Wow air. vísir/vilhelm
Þörf er fyrir 95 þúsund nýja flugmenn í Evrópu á næstu 16 árum. Alls er þörf fyrir yfir 560 þúsund nýja flugmenn um allan heim á tímabilinu, að því er viðskiptavefurinn e24.no hefur eftir félagi norskra flugmanna. Jafnframt kemur þar fram að hörð samkeppni sé fram undan um reynda flugmenn.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að miðað við vöxt í farþega- og fraktflugi og að stórar kynslóðir flugmanna séu að fara á eftirlaun, hafi verið vitað um árabil að það stefndi í skort á flugmönnum í heiminum.

„Á Íslandi hefur þessi skortur ekki komið fram enn þá en ljóst er að með vexti íslensku flugfélaganna er þörf á fleiri flugmönnum sem útskrifast úr flugskólunum. Þess sjást þegar merki að aðsókn að flugskólunum hefur aukist. Íslensku flugfélögin hafa jafnframt möguleika á því að ráða flugmenn innan Evrópusambandsins til starfa og alltaf er nokkur áhugi erlendra flugmanna á því að starfa á Íslandi,“ greinir Guðjón frá.

Af fjórum flugskólum á Íslandi útskrifa tveir atvinnuflugmenn, það er Flugskóli Íslands og Flugakademía Keilis. Frá þeim útskrifast nokkrir tugir atvinnuflugmanna á ári.

Að sögn Örnólfs Jónssonar, formanns Félags íslenskra atvinnuflugmanna, starfa rúmlega 400 flugmenn hjá Icelandair í sumar og rúmlega 100 hjá Wow air.

„Það hefur náðst að manna flugvélarnar en það fer að styttast í að það verði skortur á flugmönnum,“ segir Örnólfur.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×