Innlent

Ekki næst að manna alla slökkvibíla í Mosfellsbæ vegna manneklu

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tekst ekki að manna alla slökkviliðs- og sjúkrabíla á slökkviliðsstöðinni í Mosfellsbæ vegna niðurskurðar. Bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ segir stöðuna óboðlega og krefst skýringa.

Niðurskurðurinn hjá slökkviliðinu hefur þegar verið tekinn til framkvæmda og um helgina voru aðeins tveir starfsmenn á vakt á slökkvistöðinni í Mosfellsbæ. Öllu jafna ættu að vera að minnsta kosti fjórir starfsmenn á stöðinni.

„Við áttum svo sem ekki von á þessu. Þetta kom okkur svolítið á óvart. Við reiknuðum með því eftir samning ríkisins um sjúkraflutningana að þá mundi koma aukið fé.

Menn eru allavega farnir að finna fyrir mjög miklu álagi uppá það að það er verið að fara kannski í útkall og vita það að það er langt í næstu aðstoð eða þurfa að bíða lengi eftir henni,“ segir Sigurjón Hendriksson, trúnaðarmaður slökkviliðsmanna hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Töluverðrar ósamræmi ríkir á skýringum stjórnar og slökkviliðsstjóra annars vegar og starfsmanna hins vegar um hvort ástandið sé eins alvarlegt eins og starfsmenn lýsa því.

„Ætli það sé ekki vegna þess að við finnum meira fyrir því í útköllum sem við höfum verið að fara í. Við erum að mæta fáir og það setur okkur slökkviliðsmenn í aukna hættu. Og ef við náum ekki að tryggja okkur og umhverfið okkar þá getum við ekki tryggt öryggi borgara í leiðinni,“ segir Sigurjón.

En þurfa sveitarfélögin sem standa að rekstri slökkviliðsins að fara setja aukið fé til rekstursins?



„Ef að óskir eru um aukið fjármagn þá þurfum við að vita hverjar orsakirnar eru, hvers vegna vantar aukið fjármagn. Það þarf að skoða það mál. En auðvitað ef að niðurstaðan er sú að það eru ekki nægilegir fjármunir til að reka slökkvistöðvarnar þannig að þær uppfylli öryggisviðmið þá þarf virkilega að skoða það. Þessi mál hafa ekki komið til umræðu hjá okkur,“ segir oddviti Samfylkingarinnar í minnihluta í Mosfellsbæ Anna Sigríður Guðnadóttir.

En væri ekki eðlilegt að bæjarstjórnarmenn væru meðvitaðir um fjárhagsstöðu slökkviliðsins?



„Auðvitað væri það. Við munum óska eftir upplýsingum frá okkar fulltrúa í stjórn slökkviliðsins sem er bæjarstjóri Mosfellsbæjar og munum gera það á fundi bæjarráðs í vikunni.

Nú tala ég bara sem almennur íbúi. Ég er ekki sérfræðingur í rekstri slökkviliða. En ef öryggisviðmið segja að þar eigi að vera 4-5 menn á vakt þá er ekki boðlegt að þeir séu tveir,“ segir Anna Sigríður


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×