Daniil Kvyat telur að hann hefði haft betur í baráttunni við fyrrum liðsfélaga sinn, Daniel Ricciardo ef hann hefði fengið að klára tímabilið hjá Red Bull.
Kvyat var færður í systurlið Red Bull, Toro Rosso fyrir síðustu keppni. Max Verstappen tók sæti hans hjá Red Bull og gerði sér lítið fyrir og vann spænska kappaksturinn. Fyrstu keppni sína hjá Red Bull.
Kvyat var 15 stigum á eftir Ricciardo þegar hann var færður til Toro Rosso. Í fyrra endaði Kvyat í sjöunda sæti í keppni ökumanna, þremur stigum á undan Ricciardo.
Að mati Kvyat afsannar sú staðreynd vangaveltur þess efnis að hann hafi farið of snemma frá Toro Rosso til Red Bull.
„Ég náði í fleiri stig en Daniel [Ricciardo] í fyrra og mér hefði tekist það aftur núna,“ sagði Kvyat.
„Ég byrjaði tímabilið í ár betur en nógu vel. Ég náði í fyrsta verðlaunapall ársins fyrir liðið og við vorum stöðugt að bæta okkur,“ sagði Kvyat um upphaf tímabilsins, þar sem hann ók fyrir Red Bull.
„Ég gerði það sem ætlast var til af mér. það er allt sem ég get sagt,“ sagði Kvyat.
„Ég gerði allt rétt, hreinlega allt,“ bætti Kvyat við að lokum.
