Innlent

Tók áratug að jafna sig á samverunni

Birta Björnsdóttir skrifar
Rithöfundarnir Einar Kárason og Ólafur Gunnarsson höfðu lengi átt þann draum heitastan að aka þvert yfir Bandaríkin, leið sem gengur undir heitinu Route 66.

„Við höfðum lesið mikið af bókum um þessar slóðir, til að mynda Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck. Þegar við seldum útgefanda okkar hugmyndina þá vildi hann fá að koma með. Svo ætluðum við að keyra á svo gömum bíl að við urðum að taka bifvélavirkja með, sem reyndist mikil snilld því sá er einn skemmtilegasti maður sem nú er á dögum. Og svo hitti ég Svenna og hann vildi líka fá að koma með til að filma þetta," segir Einar.

Þeir enduðu sem sé fimm, Einar, Ólafur, útgefandinn Jóhann Páll Valdimarsson, bifvélavirkinn Steini í Svissinum og kvikmyndagerðarmaðurinn Sveinn Magnús Sveinsson.

„Þetta var ekki allt samkvæmt plani. Þetta snerist meira og minna um núning á milli manna og hvort að bíllinn kæmist á milli verkstæða," segir Sveinn.

Í kjölfar ferðarinnar kom út bók um frægðarförina miklu og í gær var heimildarmyndin, Úti að aka - Á reykspólandi kadilakk yfir Ameríku, frumsýnd.

„Já já, það er verið að spá í að gera bæði ballett og óperu uppúr þessu líka. Þetta verður ein frægasta ferð sem hefur verið farin," segir Einar.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynskeiði gekk á ýmsu í bílferðinni miklu. En þó grunnt hafi verið á því góða öðru hverju í ferðinni útiloka þeir félagar ekki fleiri ferðalög.

„Þeir hafa talað bæði um Rússland og Suður-Ameríku svo ég bíð bara eftir næsta leik," segir Sveinn.

„Við höfum haft núna tíu ár til að jafna okkur svo við erum tilbúnir aftur," segir Einar.

Heimildarmyndin, Úti að aka - Á reykspólandi kadilakk yfir Ameríku, er nú sýnd í Bíó Paradís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×