Handbolti

Dagur semur við Japan til ársins 2024

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mikið og langt ævintýri bíður Dags Sigurðssonar á nýju ári.
Mikið og langt ævintýri bíður Dags Sigurðssonar á nýju ári. vísir/getty
„Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda. Það eru svona tíu ár síðan ég byrjaði að vera í stöðugu sambandi við japanska sambandið,“ segir Dagur Sigurðsson handboltaþjálfari við Vísi en í kvöld verður tilkynnt að hann hafi samið við japanska handknattleikssambandið.

Er það var staðfest að Dagur myndi hætta með þýska landsliðið eftir HM í janúar var orðið ljóst að hann væri á leið til Japans.

„Ég hef verið að aðstoða Japani með þjálfara og leikmenn hér í Þýskalandi síðustu ár. Svo hef ég flogið þarna yfir einu sinni á ári til að halda fyrirlestra.“

Dagur segir að eftir Ólympíuleikana í Ríó í ágúst hafi fyrst komið upp að japanska sambandið ætlaði að bjóða sér samning um að taka við landsliði þjóðarinnar og hjálpa til við að byggja upp handboltann í landinu.

„Samningurinn er klár og þeir munu tilkynna um samninginn seint í kvöld,“ segir Dagur en talað hefur verið um að hann ætti að gera lið Japan samkeppnishæft fyrir ÓL í Tókýó árið 2020. Japanir horfa lengra en það og samningur Dags er því afar langur.

„Þessi samningur er fram yfir Ólympíuleikana 2024 þannig að þetta er í raun rúmlega sjö ára samningur,“ segir Dagur en svo langt er í þá leika að ekki liggur enn fyrir hvar leikarnir árið 2024 verða. Það verður ákveðið í september.

„Þetta er langtímaverkefni. Ég geri mér grein fyrir því að ég er ekki að búa til eitthvað súperlið fyrir árið 2020. Ég var til í að skoða þetta með þeim ef þeir væru að horfa á að lyfta boltanum upp í heild sinni. Ég mun vinna með deildarþjálfurunum og koma að ansi mörgum þáttum handboltans í Japan.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×