Körfubolti

Stefán Karel: Maður hefur bara einn haus

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
ÍR-ingurinn Stefán Karel Torfason var fluttur upp á spítala eftir fyrsta leik ÍR-inga í Dominos-deildinni í vetur er hann fékk slæmt höfuðhögg. Framhaldið hjá honum er í óvissu.

„Ég ætlaði að snúa mér með boltann í átt að körfunni og fæ þá leikmann úr hinu liðinu beint á blindu hliðina. Þá slokknuðu ljósin og ég man ekki neitt,“ segir Stefán Karel en hann vankaðist og varð að eyða nóttinni á sjúkrahúsi. Þar kom í ljós að hann hafði fengið heilahristing. Enn eina ferðina.

„Þetta er þriðja staðfesta skiptið á heilahristingi. Það er komin meiri varkárni núna og passað betur upp á þetta,“ segir Stefán Karel en hann telur sig hafa fengið heilahristing fjórum sinnum. Í fjórða skiptið fór hann ekki upp á spítala.

Hann finnur meira fyrir meiðslunum núna en áður. Engu að síður segist Stefán vera á batavegi.

„Hausverkurinn er minni sem og slappleikinn. Vonandi getur maður farið að sinna daglegu lífi enn frekar núna.“

Stefán Karel er aðeins 22 ára gamall. Sumir læknar segja honum að fara hægt en aðrir læknar vilja að hann hvíli lengi.

„Ég ætla að meta þetta viku eftir viku. Ekki flýta mér og komast aftur á gólfið sem fyrst. Ég ætla ekki að hætta strax. Ekki á meðan maður er enn með smá vit í kollinum,“ segir Stefán léttur en hann tekur þetta þó alvarlega.

„Ég þarf að taka þetta alvarlega. Ég þarf að passa mig betur. Maður hugsar ekki um að maður þurfi að hætta 22 ára gamall en maður hefur bara einn haus og þarf að hugsa með honum.“

Sjá má viðtalið við Stefán Karel í heild sinni hér að ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.