Skoðun

„Almenningsvæðing“, Bjarni?

Vésteinn Valgarðsson skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, nefndi þá hugmynd á dögunum, að það ætti að „almenningsvæða“ Landsbanka Íslands. Það er gaman að sjá að boðskapur Alþýðufylkingarinnar um félagsvæðingu hafi náð svo langt, að hann sé farinn að bergmála úr herbúðum íhaldsins. Þaðan kemur hann þó svo skældur að þörf er á leiðréttingu.

„Almenningsvæðing“ Bjarna er algerlega á forsendum markaðshyggjunnar. Það á ekkert skylt við félagsvæðingu, að afhenda einhver 10-20% bankans „beint til almennings“, hvort sem það er gegn gjaldi eður ei, dreift í öreindum eða stórum stykkjum, framseljanlegt eða óframseljanlegt. Bankinn er áfram rekinn í gróðaskyni og heldur áfram að draga sér fé frá fólkinu í landinu.

Félagsvæðing er aftur á móti allt annað. Hún snýst aðallega um tilgang rekstrarins. Tilgangur félagslegs banka er að veita fólki hagstæða fjármálaþjónustu. Það á ekki að vera neinn annar tilgangur. Eða réttara: annar tilgangur er andfélagslegur. Fjármálakerfið á ekki að vera rekið í gróðaskyni; gróðinn á að koma fram í betri lífskjörum í landinu vegna þess að fólk þarf ekki lengur að borga okurvexti af lánum.

Sumir stjórnmálaflokkar tala fyrir „samfélagsbanka“. Við í Alþýðufylkingunni viljum að allt fjármálakerfið sé félagslega rekið, ekki bara bankarnir heldur líka lífeyrissjóðir og tryggingafélög. Bjarni Benediktsson er ólíklegur til að samsinna því og enn ólíklegri til að framkvæma það. Ef fólk vill að fjármálakerfið í landinu þjóni fólkinu en ekki auðvaldinu, þá á hvorki að þiggja dúsu Bjarna né hálfkákið sem fólk kallar „samfélagsbanka“ – það á að félagsvæða fjármálakerfið, hvorki meira né minna, og útrýma andfélagslegri okurlánastarfsemi úr landinu.

Fyrsta skrefið til þess að er kjósa Alþýðufylkinguna í Alþingiskosningunum í haust.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×